Hvorki Ólafur Ísleifsson né Karl Gauti Hjaltason, þingmenn Flokks fólksins, taka í mál að segja af sér þingmennsku, þrátt fyrir að stjórn flokksins hafi í gær skorað á þá að láta af embættum.

Á stjórnarfundi Flokks fólksins í gær var samþykkt tillaga um að Ólafur og Karl ættu að segja af sér. Þeir tóku þátt í samtali á Klaustur bar þar sem talað var með niðrandi hætti um formann flokksins, þingmenn og ýmsa þjóðfélagsþegna. 

RÚV hefur eftir Karli að að ekki komi til greina að segja af sér. „Ég tel þetta ekki góða framkomu að fá ekki tækifæri til að ræða málið í rólegheitum. Það er sjálfsögð kurteisi að fá svigrúm til að svara þessu,“ segir hann.

„Það eru auðvitað engin efni til þess að ég segi af mér þingmennsku,“ hefur Vísir eftir Ólafi Ísleifssyni, þingmanni. „Ég er ekkert á leiðinni úr þessum flokki.“ Hann hafi í tvígang tekið til varna fyrir fólk í samræðunum en hann segist hafa mátt gera það oftar. Hann hafi látið sig hverfa þegar hann sá í hvað stefndi. „Það var mjög leitt að verða vitni að þessu.“

Flokkur fólksins hefur boðað til nýs stjórnarfundar um helgina. „Það er al­veg ná­kvæm­lega sama hvað er sagt, það er ekki hægt að taka það aft­ur sem fram fór á þess­um bar. Þetta er ein­fald­lega al­gjör­lega óboðlegt,“ hefur mbl.is eftir Ingu Sæland formanni.