Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, virðist ekki hafa mætt á fund sem flokkurinn boðaði til í dag vegna þeirra ummæla sem hann og samflokksmaður hans, Karl Gauti Hjaltason, létu falla um Ingu Sæland, formann flokksins. 

Fundurinn hófst klukkan 17 í dag en til hans var boðað eftir að DV og Stundin birtu upptökur þar sem Ólafur og Karl Gauti, ásamt fjórum þingmönnum Miðflokksins, heyrast tala afar fjálglega um Ingu, og segja hana hafa „grenjað sig inn á þing“.

Flokksmenn hófu fundinn á að horfa á viðtal sem tekið var við Ólaf á RÚV í morgun, þar sem Ólafur segist ekki eiga von á neinum sérstökum afleiðingum vegna ummæla sinna um formanninn. Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður flokksins, fór hins vegar fram á afsögn þeirra í samtali við blaðið í dag

Fréttablaðið hefur ekki náð tali af Ólafi vegna málsins, þrátt fyrir fjölmargar tilraunir. Ljósmyndari Fréttablaðsins var viðstaddur við upphaf fundarins, og sjá má myndir af fundinum hér fyrir neðan. 

Uppfært kl 18.15:
Ólafur segir í skriflegu svari til blaðsins hafa mætt seint á fundinn, og farið snemma vegna boðs á Bessastöðum. DV segir að Ólafur og Karl hafi ekki í hyggju að segja af sér vegna málsins.