Játning eftir Ólaf Jóhann Ólafsson var mest selda bókin í nóvember, samkvæmt metsölulista Eymundsson. Reykjavík glæpasaga eftir Ragnar Jónasson og Katrínu Jakobsdóttur kom næst á eftir.

Margrét Jóna Guðbergsdóttir, vörustjóri Pennans-Eymundsson, segir Játningu hafa verið á mikilli siglingu allt frá því að hún kom út. Breiddin á metsölulistanum sé einkar athyglisverð. Þar séu skáldsögur og barnabækur og meira að segja ein bók á ensku. Í 10. sæti er bókin Yule lads eftir Brian Pilkington.

„Þetta bendir eindregið til þess að erlendir ferðamenn og endurkoma þeirra eftir Covid hafi áhrif á bóksölu hér á landi fyrir þessi jól.“

Arnaldur, Yrsa, Sigríður Hagalín, Auður Ava og Jón Kalman eru einnig með bækur í efstu tíu sætunum.

„Svo eru þarna barnabækur, en David Walliams gerði allt vitlaust þegar hann heimsótti Ísland um miðjan nóvember og troðfyllti meðal annars verslun Pennans-Eymundsson í Smáralind þegar hann kom þar fram og áritaði bækur.“

Orri óstöðvandi, fimmta bókin um Orra eftir Bjarna Fritzson, er líka á listanum yfir mest seldu bækur nóvember.

Að sögn Margrétar jókst salan í nóvember milli ára og desember fer vel af stað.