Ólafur Ísleifsson, þingmaður utan flokka, verður gestur Péturs Gunnlaugssonar í síðdegisþættinum á Útvarpi Sögu klukkan 16 í dag. Hann var um langt árabil reglulegur og tíður gestur hjá Pétri á föstudögum þegar þeir fóru yfir þjóð- og heimsmálin en hvarf af þessum vettvangi eftir að Klaustursmálið kom upp í nóvember.

Hann segist aðspurður ekki vita hvort þetta þýði að hann sé alkominn aftur og verði fastagestur hjá Pétri í framtíðinni. Það sé útvarpsstjórans og stöðvarinnar að ákveða það. „Ég hef bara haft þá formúlu að ef einhver fjölmiðill vill við mig tala þá tala ég við þann fjölmiðil,“ segir Ólafur í samtali við Fréttablaðið. 

Hann svaraði því að sjálfsögðu kalli Péturs þegar það kom og á honum má heyra að hann hafi saknað þessara funda nokkuð. „Það hefur verið rosalega gaman að tala við svona kláran og skemmtilegan mann eins og hann Pétur.“

Ólafur hefur notið talsverðar hylli hjá hlustendum útvarpsstöðvarinnar og nokkuð hefur verið um að innhringjendur í símatíma stöðvarinnar hafi tjáð óánægju sína með brotthvarf hans og hvatt Pétur til þess að fá hann aftur að hljóðnemanum. Hann segist óneitanlega hafa fundið fyrir þessu á eigin skinni. 

„Mér hefur nú bara heyrst það eiginlega alveg sama hvar ég kem og fólk hefur sagst hafa haft gaman að því að hlusta á mig og mikið spurt hvort ég fari ekki að koma aftur,“ segir Ólafur.

„Þegar ég var háskólakennari taldi ég það vera algeran part af minni starfsskyldu að mæta í öll svona viðtöl og allt sem ég var beðinn um. Ég leit bara þannig á að ég væri á launum hjá almenningi við að vera háskólakennari og ætti bara að mæta ef það væri kallað eftir því og ég tel náttúrlega líka að það sé skylda mín í núverandi hlutverki að bregðast vel við öllu sem snýr að fjölmiðlum.“

Ólafur mætir sem fyrr segir í beina útsendingu hjá Pétri á Útvarpi Sögu klukkan 16 í dag. Hægt er að hlusta á þáttinn á FM 99,4 og á Útvarp Saga.is.