Ólafur Kr. Guð­munds­son, vara­borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, segir færslu sína um Dag B. Eggerts­son, borgar­stjóra, hafa verið mis­tök. Hann segist ekki ætla að segja af sér sem vara­borgar­full­trúi vegna málsins. Eyþór Arnalds, oddviti flokksins, segist í samtali við Fréttablaðið fordæma ummælin.

„Ég er búin að taka hana út. Þetta voru mis­tök. Þetta er eðli Face­book,“ segir Ólafur. „Ef maður setur þetta inn þá sjá þetta allir. Ef ég hefði sagt þetta við þig hefðum við senni­lega báðir hlegið, en þetta voru bara mis­tök.“

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hefur færsla Ólafs vakið mikla athygli. „Byrjaðu á sjálfum þér...Hér er af­leiðing af því sem hampað hefur verið frá svo­kalaða hruninu 2008. Nú er byltinginin komin heim og þú verður bara að taka því Hr. borgar­stjóri,“ skrifar Ólafur í færslunni.

Henni hefur nú verið eytt en fékk að standa þar til í morgun. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fordæmdi ummælin meðal annars.

Ólafur segist ætla að biðja Dag af­sökunar í dag. „Þetta var ó­heppi­legt. Maður áttaði sig bara ekki á því að þetta væri komið á þennan le­vel. Það er búið að vera mikil um­ræða um alls­konar hluti, þar sem verið er að mót­mæla og þetta fór yfir strikið.“

Hyggstu halda á­fram sem vara­borgar­full­trúi?

„Já, já. Við gerum öll mis­tök. Ég hef gert önnur mis­tök í lífinu og kem til með að gera mis­tök. Þú gerir mis­tök, Dagur gerir mis­tök. Þetta var ekki gert í neinum ill­vilja eða til að særa einn eða neinn.“

Hann segist að­spurður ekki hafa verið undir á­hrifum á­fengis þegar hann skrifaði um­mælin. „Ég var bara að fara að sofa. Þetta var það síðasta sem ég gerði áður en ég slökkti á tölvunni, að setja þetta inn í bríaríi og var búinn að gleyma þessu í morgun þegar ég vaknaði.“

Oddviti flokksins fordæmir ummælin

Eyþór Arnalds, oddviti flokksins, fordæmir ummæli Ólafs og segir að þau verði líklega tekin fyrir innan flokksins.

„Ég fordæmi þessi ummæli og öll ummæli sem geta hvatt fólk til ofbeldis, það er alveg ólíðandi. Það er verið að ráðast á íslenskt samfélag þegar það er skotið á bifreið borgarstjóra og við þurfum að standa saman öll sem eitt að útrýma þeirri hugsun að þetta geti liðist í íslensku samfélagi,“ segir Eyþór.

„Mér var mjög brugðið þegar ég sá þessi ummæli í gærkvöldi. Þau eru ekki á nokkurn hátt samboðin því sem við stöndum fyrir.“

Aðspurður um eftirmála segir Eyþór að málið verið tekið fyrir, bæði á vettvangi borgarstjórnar og innan Sjálfstæðisflokksins. „Þetta verður rætt á fundi forsætisnefndar í dag.“