Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur á skrifstofu efnahagsmála í fjármálaráðuneytinu, skrifaði tölvupóst annars vegar til starfs­manna fjár­mála­ráðu­neyta hinna Norð­ur­land­anna og ritstjórnar tímaritisins Nordic Economic Policy Review (NEPR) þar sem mælt er gegn ráðningu Þorvaldar Gylfasonar hagfræðings í stöðu ritstjóra.

Segir Bjarna Ben bera ábyrgð

Þorvaldur óskaði eftir að fá aðgang að tölvupóstsamskiptum ráðuneytisins við tímaritið og fékk hann þau gögn afhent eftir úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í síðustu viku. Kjarninn greindi frá þessu í gær og kom málið upp á þingfundi í gær.

„Formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, kom í veg fyrir að Þorvaldur Gylfason, sem hefur getið sér gott orð sem hagfræðingur á alþjóðavísu, fengið starf sem honum hafði borist. Formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra beitti sér og nýtti sér stöðu sína til að refsa Þorvaldi Gylfasyni, fyrir að tjá sig um þjóðmál á í ræðu og riti. Hæstvirtur ráðherra starfar í umboði Alþingis. Alþingi getur aldrei samþykkt og á aldrei að samþykkja að ráðherra beiti sér með þessum hætti og ég vænti þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sinni skyldum sínum og taki þetta mál fyrir á fundi,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í umræðum um störf þingsins í gær.

Tölvupósturinn gefur til kynna að til hafi staðið að ráða Þorvald í ritstjórastarfið áður en fjármálaráðuneytið tjáði sig um málið.
Mynd: skjáskot af tölvupóstsamskiptum

Of pólitískur að mati ráðuneytisins

Þor­valdur segir að búið hafi verið að bjóða sér rit­stjóra­starfið en í tölvupósti sem honum barst 1. nóvember 2019 segir Anders Hedberg, tengiliður við NEPR, að þau hlakki til að vinna með honum. Eftir að fjármálaráðuneytið neitaði að mæla með honum var hætt við að bjóða honum starfið.

NEPR höfðu samband við fjármálaráðuneytið til að biðja um álit þeirri á umsókn Þorvaldar. Ólafur Heiðar sendi þá svar fyrir hönd ráðuneytisins að Ísland gæti ekki stutt ráðningu Þorvaldar í stöðu ritstjóra. Ástæðan væri sú að Þor­valdur hefði verið og væri enn, sam­kvæmt bestu vit­neskju ráðu­neyt­is­ins, for­maður stjórn­mála­afls. Hann væri því of póli­tískur til þess að ráðu­neytið gæti stutt ráðninguna.

Finnska ráðuneytið sagðist undrandi yfir því að Ísland gæti ekki stutt ráðningu Þorvaldar. Hann væri góður kandídat að þeirra mati.

Háður þagnarskyldu

Ólafur Heiðar vill ekki tjá sig um málið. „Ég er háður þagnarskyldu um allt sem að ég geri í rauninni og má ekki ræða það við fjölmiðla.“

Vill hann heldur ekki ræða hvort hann hafi borið innihald tölvupóstsins undir einhvern annan í ráðuneytinu. „Ég get ekki tjáð mig um þetta mál, né önnur sem ég er að vinna í.“

Full­trúi finnska ráðu­neyt­is­insg sagð­ist „mjög undr­andi“ á þess­ari afstöðu Íslands