Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, gerir ekki athugasemd við álit siðanefndar um Klaustursmálið sem var sendur forsætisnefnd til yfirferðar og hyggst bíða niðurstaðna hennar sem koma á í næstu viku.

Þeir þingmenn sem siðanefnd fjallar um gefst núna kostur á að bregðast við og koma með álit sitt á úrskurði siðanefndar í vikunni.

„Þessu máli lýkur með ákvörðun forsætisnefndar og ég hef séð haft eftir þeim í blöðunum að niðurstöðum um það sé að vænta þeirra í næstu viku svo mér finnst ekki viðeigandi af minni hálfu að vera að fjalla um þetta fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir,“ segir Ólafur Ísleifsson sem gerir engar athugasemdir við úrskurðinn. „Ég hef engar athugasemdir, eða ég hef ekkert um það að segja. Þegar þetta liggur fyrir, þá liggur það fyrir þá er kannski eitthvað hægt að segja um það.“

Forsætisnefnd leitaði til siðanefndar í vetur vegna Klaustursmálsins og komst hún að þeirri niðurstöðu í mars að ummæli þingmannanna sex á Klaustri sem náðust á upptöku, félli undir gildissvið siðareglna þingsins. Niðurstaðan var sú að staða þingmanna sem opinberar persónur skipti máli og að háttsemin á Klausturbar hafi átt sér stað á opinberum vettvangi og tengist málum sem hafi verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni.

Forsætisnefnd er tímabundið skipuð þeim Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni Vinstri Grænna meðan þau taka Klaustursmálið fyrir.

Steinunn Þóra segir við Fréttablaðið: „Þau hafa tíma út vikuna til að skila áliti sínu og ég geri ráð fyrr því að við munum fara yfir þetta í næstu viku. Við vitum ekki hvað við fáum í hendurnar og hvenær, en við munum vinna þetta samkvæmt því.“