Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og kaupsýslumaður í New York segist hafa flúið með fjölskyldunni sinni frá Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Hann hafi ekki lengur treyst heilbrigðiskerfi landsins þegar kórónuveirufaraldurinn skall á landinu, enda hafi yfirvöld sofið á verðinum.

Í þessu felist auðvitað þversögn; sjálfur sé hann tryggður upp í rjáfur gagnvart þjónustu heilbrigðiskerfisins vestra, með lögheimili á Manhattan þar sem bestu sjúkrahús heims sé að finna, en engu að síður hafi hann flúið borgina – og komið heim til Íslands þar sem hann dvelji enn.

Gjáin á milli fólks í bandarísku samfélagi aldrei dýpri

Ólafur segir að bandarískt samfélag sé fullt af þversögnum og sé búið til fyrir þá sem geta en ekki hina sem geti ekki.

,,Það er raunalegt að gjáin á milli þessara hópa og klofningurinn í bandarísku samfélagi hafi aldrei verið dýpri og meiri á þeim bráðum 40 árum sem ég hef verið búsettur vestra," segir Ólafur Jóhann.

Þar fyrir utan hafi ímynd bandaríska samfélagsins aldrei beðið jafn mikinn hnekki og verið eins löskuð og eftir valdatíð fráfarandi Bandaríkjaforseta. Það taki mörg ár að laga þá ímynd, en líklega muni það takast á endanum.

Ólafur Jóhann er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld klukkan 20:00. Hér fyrir ofan má sjá brot úr viðtalinu.