Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, hefur deilt frétt á Twitter síðu sinni þar sem hann vekur athygli á samningi kínversks byggingarfyrirtækis og stærsta títanframleiðanda Rússlands í tengslum við þróunarverkefni á norðurskautinu.
Í færslu sinni segir Ólafur samninginn vera enn önnur stoð í efnahagssamskiptum Rússlands og Kína á 21. öldinni.

Rússneska fyrirtækið Rustitan og kínverska fyrirtækið China Communications and Construction Company skrifuðu nýlega undir samning varðandi þróun á Pizhemskoye títan námunni sem staðsett er í Komi-héraðinu í norðurhluta Rússlands. Samstarfið felur í sér vinnslu á námunni sjálfri sem og nokkur önnur stórfelld innviðarverkefni, þar á meðal víkkun á Indiga-djúpsjávarhöfninni og byggingu á járnbrautalest milli Sosnogorsk og Indiga.
Kínverska fyrirtækið hefur tekið þátt í fjölda verkefna í tengslum við kínversku fjárfestingar- og framkvæmdaáætlunina Belti og braut en hefur líka verið harðlega gagnrýnt fyrir vafasama viðskiptahætti.
China Communications and Construction Company sá meðal annars um byggingarframkvæmdir fyrir kínverska herinn í Suður-Kínahafi og hefur sætt refsiaðgerða af hálfu bandarískra yfirvalda í meira en áratug.
Fréttinni hefur verið breytt. Í fyrstu útgáfu stóð að Ólafur Ragnar fagnaði og lofaði samstarfinu. Það er ekki rétt. Hann var að vekja athygli á því. Breytt 7.2.2023 kl. 11:16.