Ólafur Arnar­son, fyrr­verandi for­maður Neyt­enda­sam­takanna, segir að ákæra á hendur honum fyrir eignar­spjöll sé byggð á misskilningi, en honum er gefið að sök að hafa sparkað í bíl­hurð á bíla­stæðinu við Costco. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Ólafur lítið vilja tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann viti ekki hvaða eigna­spjöllum hann á að hafa valdið.

„Það er ekkert um þetta að segja. Þetta er á ein­hverjum mis­skilningi byggt,“ segir Ólafur og bætir við að væntan­lega verði sá mis­skilningur leið­réttur fyrir dóm­stólum.

„Ég veit ekki hvaða eigna­spjöll er um að ræða. Ég er sakaður um eitt­hvað sem átti sér ekki stað.“ Hann vill ekkert segja um það hvort að ein­hver sam­skipti hafi átt sér stað á milli hans og þess sem kærði hann. Hann segist ætla að halda uppi fullum vörnum í málinu.

Í á­kærunni er Ólafi gefið að sök að hafa valdið tjóni á bif­reið á bíla­stæðinu við Costco með því að hafa sparkað í aftur­hurð bílsins. Er þess krafist að Ólafur greiði 214 þúsund krónur fyrir viðgerð á bílnum og hundrað þúsund krónur í skaða­bætur vegna kostnaðar. Þá er hann einnig krafinn um „hæfilega lögmannsþóknun að viðbættum virðisaukaskatti.“