Tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds er annar þeirra sem valdir voru til að endurhljóðblanda nýjustu smáskífu þýsku þungarokks­sveitarinnar Rammstein. Lagið heitir Zeit, eða Tími á íslensku, og var gefið út í síðasta mánuði. Hinn er þýski raftónlistarmaðurinn Robot Koch.

Rammstein hefur haldið þrenna tónleika á Íslandi, tvenna í Laugardalshöll árið 2001 og eina í Kórnum í Kópavogi árið 2017. Zeit er fyrsta smáskífan af áttundu plötu sveitarinnar, sem kemur út 29. apríl.

Þetta er ekki fyrsta samstarf Ólafs í þýsku rokki, en áður hafði hann unnið með sveitinni Heaven Shall Burn á plötunni Antigone árið 2004.