Ólafur Hlynur Guðmarsson, eitt mesta jólabarn landsins, birtist norskum sjónvarpsáhorfendum sem jólasveinninn í nýrri auglýsingu norska póstsins. Sést hann þeysa um Jökulsárlónið á sjóketti og í stuttbuxum einum fata.

Norski pósturinn fól íslenskum aðila að taka atriðið upp en enginn á lista aukaleikara þótti passa í hlutverkið. Fannst Ólafur loks við einfalt myndagúggl. „Norðmennirnir voru ekki lengi að samþykkja mig þar sem þeim fannst mér svipa til aðalleikarans og ekki skemmdi góða auglýsingu að ég hreinlega ætti jólabúð,“ segir Ólafur sem rekur búðina Heimilið og jólin á Selfossi.

Atriðið var tekið upp í þessum mánuði. Tóku upptökurnar fjóra klukkutíma en Ólafur sést í tvær sekúndur. „Þetta var ekki auðvelt út af kuldanum en fólkið hugsaði vel um mig og fór ég alltaf inn í heitan bíl á milli. Ég var svo kaldur í nokkra daga á eftir en ekki veikur.“

Ólafur er ánægður með útkomuna og segir auglýsinguna vera að fá góð viðbrögð í Noregi. Mögulega sé þetta upphafið að stærri leikferli. „Ég hef nú ekki leikið áður en það væri gaman að gera það aftur. Ég skráði mig á aukaleikaralista.“

Fyrir aðeins rúmu ári opnuðu Ólafur og kona hans Hanna Sigga Unnarsdóttir verslunina þar sem þau selja jólavörur, heimilisvörur og húsgögn. Fyrir skemmstu opnuðu þau útibú í Glæsibæ. Þau voru ekki smeyk við að opna nýja verslun í miðjum heimsfaraldri.

„Við höfum átt fínt ár og fólk er að gera sér ferð til að koma í verslunina okkar á Selfossi. Þannig að okkur fannst alveg upplagt að prófa að opna líka verslun í Reykjavík.“

Verslunin á Selfossi er þó enn hjartað. Þar stendur hann sjálfur við búðarborðið. „Okkur líður alveg gríðarlega vel á Selfossi og sjáum ekki að við séum að fara. Við erum með þrjár stelpur sem eru að komast inn í samfélagið þannig að það að flytja á Selfoss var frábært.“

Hvað jólin sjálf varðar segist Ólafur vonast til þess að fólk passi upp á sóttvarnir. Það yrði erfitt að geta ekki heimsótt vini og vandamenn um jólin.

„Jólin er tíminn til að gleðjast og fjölskylduboðin er tíminn til að taka utan um þann sem þú hefur ekki séð eða hitt lengi. Ef COVID á eftir að stríða okkur áfram um jólin þá þurfum við að vera dugleg að hringja eða taka myndfundi með þeim sem okkur þykir vænt um.“

Ólafur birtist í auglýsingunni hér að neðan á 1:11 mínútu.