Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur til að láta reisa minnisvarða eftir Ólaf Elíasson í Vestmannaeyjum þann 3. júlí árið 2023 þegar 50 ár eru liðin frá Heimaeyjargosinu.

Hún hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um að hún stofni nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um gosið.

„Fáir atburðir mörkuðu jafn djúp spor í sögu Íslands á liðinni öld og eldgosið á Heimaey sem hófst þann 23. janúar 1973 og lauk í byrjun júlí sama ár. Heimaeyjargosið er eina eldgosið sem hafist hefur í byggð á Íslandi og urðu 1.350 fjölskyldur, um 2,5 prósent þjóðarinnar, heimilislausar í einni svipan þegar 1,6 km gossprunga opnaðist við bæjardyr Vestmannaeyinga,“ segir forsætisráðherrann í greinargerð sinni.

Eldgosið hafi ekki bara verið áfall fyrir íbúa Heimaeyjar heldur einnig efnahagslegt högg fyrir Ísland þar sem Vestmannaeyjar voru stærsta verstöð landsins sem skapaði um 12 prósent útflutningstekna. Vestmannaeyingar fengu gríðarlega aðstoð alls staðar frá en engin þjóð gerði eins mikið og Norðmenn en þeir voru nánast tilbúnir til að taka við öllum Vestmannaeyingum ef á hefði þurft að halda.

Katrín segir mikilvægt að minnast gossins með myndarlegum hætti svo að minningin um einstök afrek og þá miklu samkennd sem ríkti við einkar krefjandi aðstæður fái lifað um ókomna tíð.

Forsætisráðherra og bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar undirrituðu viljayfirlýsingu í september 2021 um samvinnu og undirbúning viðburða í tilefni goslokaafmælisins.

Hafa þegar samið við Stúdíó Ólafs Elíassonar

Undirbúningur að minnisvarðanum er þegar hafinn; Vestmannaeyjabær hefur samið við Stúdíó Ólafs Elíassonar um hugmyndavinnu fyrir minnisvarða og ríkisstjórn Íslands veitt því verkefni styrk af ráðstöfunarfé sínu.

Ólafur Elíasson er dansk-íslenskur listamaður þekktur fyrir skúlptúra og innsetningar þar sem hann vinnur meðal annars með ljós, vatn og lofthita. Hann stofnaði Studio Ólafs Elíassonar í Berlín árið 1995.

Verk eftir Ólaf Elíasson: The weather project í Tate modern safninu í London og New York City Waterfalls á Brooklyn brúnni.
Fréttablaðið/Getty images

Meðal þekktustu verka eins eru The weather project, hjúpurinn sem umlykur Hörpu og New York City Waterfalls.

„Ólafur Elíasson er einn af fremstu listamönnum landsins sem víða hefur hlotið lof og viðurkenningu fyrir listsköpun sína. Því var ákveðið að semja við hann um hugmyndavinnu í samræmi við 39. gr. laga um opinber innkaup,“ segir Katrín.

Ólafur Elíasson með ljósmyndasýningu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari