Borgarráð hefur samþykkt tillögu mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um að tryggja ókyngreind almenningssalerni og búningsaðstöðu í nýju húsnæði borgarinnar og þegar um endurgerð er að ræða.Samkvæmt þessari ákvörðun eiga ókyngreind salerni og búningsaðstaða að vera í byggingum skóla- og frístundar sem og annars staðar í húsnæði borgarinnar sem opið er almenningi. Í tilkynningu frá borginni segir að mikilvægt sé að öll svið Reykjavíkurborgar gangi í takt og hafi sömu sýn er kemur að því að útbúa aðstöðu fyrir öll kyn.

Könnun og samtal starfshóps við skólastjórnendur hafi leitt í ljós að sumir hinsegin nemendur veigri sér við að nota kyngreinda aðstöðu í skólum og ákall sé eftir einstaklingsbundinni salernisaðstöðu í skólum óháð kyni og kynvitund.