Jafn­réttis­full­trúi Há­skóla Ís­lands, Arnar Gísla­son, fagnar um­ræðunni um aukna þörf á ó­kyn­greindum salernum innan há­skólans og telur að mikill vilji sé til úr­bóta hjá há­skóla­yfir­völdum.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í gær á­kvað há­skóla­neminn og hin­segin aktív­istinn Mars Proppé að taka málin í sínar eigin hendur og fjar­lægja kynja­merkingar af klósettum í HÍ til að mót­mæla skorti á ó­kyn­greindum salernum.

„Þetta finnst okkur of­boðs­lega mikil­væg og þörf um­ræða. Ó­kyn­greind salerni eru mjög mikil­vægt skref fyrir HÍ að stíga núna lengra og fyrir sam­fé­lagið, sem snýst um að viður­kenna til­vist hin­segin fólks, tryggja öryggi og réttindi hin­segin fólks. Við sjáum þetta sem hluta af stærri um­ræðu um hvernig hug­myndin um kyn er að breytast. Veru­leikinn er miklu flóknari en að það séu bara tvö kyn,“ segir Arnar.

Að sögn Arnars er jafn­rétti eitt af þremur grunn­gildum há­skólans og mála­flokkur sem há­skóla­yfir­völd leggja mjög mikla á­herslu á.

„Það að tryggja að­gengi að ó­kyn­greindum salernum er ein af þeim að­gerðum sem eru í jafn­réttis­á­ætlun hjá okkur. Mitt mat er að það sé mjög mikill vilji til úr­bóta,“ segir hann og nefnir sem dæmi að þegar há­skólinn ræðst út í ný­byggingar eða við­hald og endur­bætur á hús­næði sé tæki­færið nýtt til að koma upp ó­kyn­greindum salernum.

Vilja gera enn betur

„Akkúrat núna þá hafa verið ýmsar að­gerðir í gangi undan­farnar vikur, í fyrsta lagi til að átta okkur á stöðunni þá tókum við saman upp­lýsingar um hver staðan er hjá okkur. Há­skólinn rekur 24 byggingar og í 17 af þeim þá er að minnsta kosti eitt ó­kyn­greint salerni, þannig að þetta er um 70 prósent.“

Arnar segir þetta vera rúm­lega hundrað salerni sem dreift er yfir sau­tján byggingar og nefnir einnig að ó­kyn­greint salerni sé að finna í Stúdenta­kjallaranum og kyn­hlut­laus sturtu­að­staða í í­þrótta­húsi há­skólans. Þó er ljóst að enn standa eftir sjö há­skóla­byggingar án ó­kyn­greindra salerna og segir Arnar há­skólann hafa unnið að til­lögum um úr­bætur um hvaða byggingar eigi að skoða fyrst í sam­tali við Q - fé­lag hin­segin stúdenta.

„Þannig að núna er staðan sú að Fram­kvæmda- og tækni­svið há­skólans er að vinna úr þessum til­lögum og skoða hvað er mögu­legt. Mark­mið okkar er alltaf að það séu ó­kyn­greind salerni í sem flestum byggingum,“ segir Arnar og bætir við að hann myndi vilja sjá að minnsta kosti eitt slíkt salerni í þeim sjö byggingum þar sem þau skortir.

Að sögn aktív­istans Mars Proppé ríkir mikil sýndar­mennska í jafn­réttis­málum innan veggja HÍ þrátt fyrir að jafn­rétti sé eitt af grunn­gildum há­­skólans. Að­spurður um hvort hann sé ó­sam­mála þeim full­yrðingum segir Arnar jafn­rétti vera mála­flokk sem há­skólinn leggur mikla á­herslu á og að bak við það liggi ýmsar að­gerðir, til dæmis í stefnu skólans og jafn­réttisáætlun. Hann viður­kennir þó að stundum gangi hlutirnir hægar innan stofnunarinnar en fólk myndi vilja.

„Við höfum mjög mikinn skilning á þessari af­stöðu og þessum sjónar­miðum. Há­skólinn er virki­lega að reyna að gera breytingar, hefur náð að gera mjög góðar breytingar myndi ég segja, annars vegar í mála­flokki jafn­réttis­mála en líka einnig í sam­bandi við ó­kyn­greind salerni. Þar myndi ég segja að við höfum náð árangri og viljum í raun ná meiri árangri, viljum gera enn þá betur,“ segir Armar að lokum.