Samtökin ’78, Trans Ísland, Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkur, auk hinsegin- og jafnréttisfélaga innan Háskóla Íslands hvetja ríkisstjórnina til að innleiða lög um kynrænt sjálfræði í stjórnarsáttmála. Þetta kemur fram í opnu bréfi sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
„Lög um kynrænt sjálfræði tóku gildi 2019 og frá ársbyrjun 2021 hefur staðið til boða hlutlaus kynskráning í þjóðskrá. Það vantar þó upp á innleiðingu laganna með uppfærslu reglugerða svo að lögin hafi tilætluð áhrif og verði eitthvað meira en fögur orð á blaði. Enn er stofnunum og vinnustöðum af ákveðinni stærð til dæmis meinað að gera salernisaðstöðu sína kynhlutlausa, því samkvæmt reglugerðum verða salerni að vera kyngreind,“ segir í bréfinu.
Breytingar lengi í vinnslu en lítið áorkast
Fréttablaðið hefur undanfarið fjallað töluvert um jafnréttismál innan Háskóla Íslands en hinsegin nemendur skólans hafa mikið gagnrýnt skort á kynhlutlausum klósettum innan skólans.
Í bréfinu kemur fram að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi lengi verið með breytingar á reglugerð varðandi almenningssalerni í vinnslu en svo virðist sem félags- og barnamálaráðherra ætli lítið að gera varðandi reglur um vinnustaði.
„Þá ber forsætisráðherra heildarábyrgð á innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði samhliða jafnréttismálunum. Það er löngu orðið tímabært að uppfæra reglugerðir í samræmi við breytta tíma og ný lög sem þegar gera ráð fyrir fleiri kynjum en kynjatvíhyggjan gerir.“
Kynrænt sjálfræði verði ávarpað í stjórnarsáttmála
Bréfritarar hvetja ríkisstjórnina til að taka tillit til þessa mála við stjórnarmyndunarviðræður.
„Um þessar mundir standa yfir ríkisstjórnarmyndunarviðræður og vilja undirrituð hvetja til þess að það verði ávarpað í stjórnarsáttmála að lög um kynrænt sjálfræði verði að fullu innleidd. Það skiptir máli að aukin réttindavernd skili sér í því sem mætir fólki á hverjum degi og hefur því umfangsmikil áhrif á lífsgæði.“
Þá segir að Reykjavíkurborg, stúdentahreyfingin og hagsmunasamtök hinsegin fólks hafi beitt sér fyrir breytingu á þessum reglugerðum til að starfsfólk, nemendur og íbúar af öllum kynjum upplifi sig velkomin innan háskóla- og borgarsamfélagsins.
Verða fyrir öráreitni og fordómur
Í niðurlagi bréfsins segir:
„Ókyngreind salerni eru mikilvæg rými fyrir breiðan hóp fólks, sem hefur kyntjáningu sem skarast á við samfélagsleg viðmið, hvort sem manneskjan er trans, intersex, kynsegin eða sískynja. Hinsegin fólk með ódæmigerða kyntjáningu mætir mikilli hliðvörslu í kynjuðum rýmum sem gera aðeins ráð fyrir kvenkyni og karlkyni. Það birtist meðal annars í formi öráreitni og fordóma. Kynjuðu rýmin eru óörugg rými fyrir margt hinsegin fólk.“
Bréfritarar segja það vera sína ósk að boðið verði upp á ókyngreind salerni og ættu þau ætíð að vera viðmiðið. Undir bréfið rita Q - félag hinsegin stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, Femínistafélag Háskóla Íslands, Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkur, Samtökin ’78 og Trans Ísland.