Austurríski ökuþórinn Niki Lauda, sem keppti í Formúlu 1 kappakstrinum á áttunda og níunda áratug og varð þrefaldur heimsmeistari, lést á friðsælan hátt í gær. Hann var sjötugur. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lauda var goðsögn í kappakstursheiminum og og vann heimsmeistaratitla í Formúlu 1 fyrir Ferrari árin 1975 og 1977 og fyrir McLaren árið 1984.

Lauda lenti í alvarlegu slysi í kappakstri í Nurburgring 1. ágúst 1976, ári eftir að hann vann sinn fyrsta titil. Eldur kom upp í bíl hans og hann hlaut þriðja stigs brunasár á höfuðið og andlitið og andaði að sér eiturgufum sem ollu lungnaskemmdum. Honum var ekki hugað líf, en jafnaði sig á undraverðan hátt og sneri aftur til keppni aðeins 40 dögum síðar, vafinn í sárabindi.

Eftir kappakstursferilinn sneri Lauda sér að rekstri flugfélags, en hann var einnig formaður Formúlu 1 liðs Mercedes og átti stóran þátt í að fá Lewis Hamilton til liðsins, en sá hefur unnið fimm heimsmeistaratitla.

Lauda var kvæntur og átti tvíbura með konu sinni, sem fæddust árið 2009. Lauda átti einnig þrjá syni úr fyrri samböndum.