Samgöngustofa vinnur nú að því að gera bóklega ökuprófið stafrænt. Samhliða verður fræðilega prófið og fyrirkomulagið endurskoðað og uppfært. Ökunámsbókin hefur nú þegar verið færð á stafrænt form en unnið er að því að gera allt ökunámsferlið starfrænt.

Í nýlegri greiningu breska bílaráðgjafafyrirtækisins Confused er Ísland talið meðal þeirra landa sem auðveldast er að ná ökuprófi. Aðeins Eistland, Bandaríkin og Tyrkland eru talin hafa léttari próf. Á 45 mínútum svari nemendur tvisvar sinnum 15 spurningum, og megi aðeins hafa 2 villur í fyrri hluta og 5 í seinni. Það er 77 prósent.

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir greininguna ekki gefa rétta mynd. Próftaki þurfi að hafa 92 prósent rétt svör en ekki 77.

Aðspurð um hversu stórt hlutfall stendur ökuprófið segir hún það vera um 50 prósent. Í fyrra hafi þó aðeins 47 prósent náð því. Segir hún íslenska ökuprófið frekar hafa verið gagnrýnt fyrir að vera of strangt en of létt en það sé í samræmi við próf á hinum Norðurlöndunum og í Hollandi til dæmis. „Miðað við það má því ætla að íslenska prófið sé af svipuðu erfiðleikastigi og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við,” segir hún.

Við hverja spurningu geta 1, 2 eða 3 valmöguleikar átt við. Prófið er 90 stig og 1 dregið frá fyrir hverja villu. Próftakar þurfi að hafa 43 stig í fyrri hluta og 83 í öllu prófinu. „Það þýðir að próftaki þarf að hafa 92% rétt svör,“ segir hún.