Von er á miklum tekjum fyrir íslenska ríkið með fjölgun myndavéla sem mæla meðalhraða ökutækja. Þetta segir lögreglumaður sem telur viðbúið að fjöldi hraðasekta gæti stóraukist með nýrri tækni.

Uppsetning myndavéla sem mæla meðalhraða ökumanna með svokölluðu tveggja punkta kerfi er þegar orðin að veruleika á tveimur stöðum á landinu. Annars vegar við Grindavíkurveg og hins vegar í Norðfjarðargöngum. Um ræðir hreina viðbót við fastar myndavélar og tilfallandi radarmælingar.

Ökumaður getur lækkað ökuhraða áður en hann ekur fram hjá fastri hraðamyndavél ef hann þekkir staðsetningu myndavélarinnar. Með tveggja punkta kerfi er engin leið að aka of hratt án viðurlaga ef farið er yfir strikið. Hæstu hraðasektir eru 250.000 krónur, auk sviptingar.

Lögregla sér um innheimtu hraðasekta en myndavélarnar eru á könnu Vegagerðarinnar. Hjá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að í bígerð væri að taka upp tveggja punkta meðalhraðakerfið á fleiri stöðum en nú er.

Lögreglumaður sem Fréttablaðið ræddi við segir opinbert leyndarmál að hvað sem líði fjölda útsendra sekta sleppi erlendir ferðamenn í stórum stíl við að greiða sektir. Skuldir þeirra séu oft afskrifaðar þar sem illa gangi að framfylgja innheimtu. Lögreglumenn sem kjósa nafnleynd segja að það þyrfti að vera hægt að strauja sektarfjárhæðir beint af greiðslukortum brotlegra erlendra ferðamanna líkt og í mörgum nágrannalandanna. Mjög erfitt geti reynst fyrir lögreglu að ná til erlendra ökumanna eftir að þeir yfirgefa landið. Það kosti tíma, álag og streð sem oft svari ekki kostnaði. Fréttablaðið ræddi við lögreglumann sem segir að ekki sé nóg að setja upp fleiri tæki. Auka þurfi skilvirkni eftirfylgni við innheimtu sekta.

Annar lögreglumaður segir að sér svíði ójafnræðið sárt í ljósi þess að erlendir ökumenn þekki oft illa aðstæður hér á landi. Þeir séu hættulegri ökumenn en innlendir. Útlendingar ættu að aka hægar en Íslendingar en í raun sé staðan sú að þeir geti ekið hraðar og gerst brotlegir án viðurlaga í mörgum tilfellum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu höfðu 884 ökumenn um síðustu mánaðamót verið sektaðir á Grindavíkurvegi frá því að innheimta sekta hófst að loknu prufuferli. Samkvæmt upplýsingum blaðsins er um að ræða nokkurra mánaða tímabil. Ákaflega fágætt er samkvæmt svörum lögreglu við fyrirspurn Fréttablaðsins að ferðamenn séu sektaðir í Norðfjarðargöngum.

„Ég veit ekki hvort við erum til í að opinbera okkar aðferðir eða skoðanir varðandi þetta atriði,“ segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, settur yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, spurður hvort erlendir ferðamenn sleppi í miklum mæli við hraðasektir umfram Íslendinga. „Frá ársbyrjun höfum við sent sektir til um 5.000 erlendra ferðamanna á landinu öllu. Ég veit ekki hvort það telst vera merki um að erlendir ferðamenn sleppi við sektir í stórum stíl.“

„Mín persónulega skoðun er að þetta sé mjög gott eftirlit,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum. „Eftirlitið er núna alltaf til staðar. Vegarkaflinn þarna var mjög hættulegur. Það höfðu mörg slys orðið þarna en nú eru ökumenn líklegri til að halda sig á löglegum hraða,“ segir Ásmundur Rúnar.