Lögreglan stöðvaði ökumann í Kópavogi sem framvísaði bráðabirgðaskírteini annars manns. Er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og fyrir að veita stjórnvaldi rangar upplýsingar.

Maðurinn hefur ítrekað verið tekinn fyrir akstur eftir að hann var sviptur ökuréttindum og er grunaður um brot á vopnalögum. Eins voru tveir farþegar í bílnum grunaðir um brot á vopnalögum.

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Fréttablaðið að allir þrír hafi verið með barefli á sér. Engin skotvopn hafi verið í bílnum.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir í Hlíðunum milli sjö og hálf fjögur í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þrír voru grunaðir fyrir ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Ökumaður sem var stöðvaður klukkan 03:25 í nótt hafði ekið yfir á rauðu ljósi.