Oktavía Hrund Jónsdóttir býður sig fram í prófkjöri Pírata í Reykjavík. Oktavía hefur verið virk í starfi Pírata síðan árið 2016 og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn. Hún er einn stofnenda Feminískra Pírata, sem er aðildarfélag Pírata á Íslandi, og hefur setið þar í stjórn og gegnt formennsku. Hún sat í stjórn Pírata í Reykjavík og í framkvæmdaráði Pírata árið 2017 en hóf í kjölfarið stjórnarsetu í evrópskum Pírötum sem varði í þrjú ár. Þar af var hún formaður og varaformaður sitt hvort árið.
Hún var pólitískur ráðgjafi þingflokks Pírata á árunum 2016 og 2017. Oktavía hefur setið tvisvar á Alþingi þegar hún leysti Smára McCarthy af á síðasta kjörtímabili og hefur verið varaþingmaður allt kjörtímabilið sem nú er að ljúka.
Í tilkynningu frá Oktavíu segir að hún telji flokkinn tákna „von um pólitíska siðbót og jákvæðar breytingar á Íslandi og að grunngildi Pírata séu leiðarvísir til að vinna bug á spillingu, sem sé því miður rótgróin á Íslandi. Hún telur að nýja stjórnarskráin sé þar mikilvægasta tækið ásamt beinu lýðræði og valdeflingu borgaranna. Hún ólst að mestu upp í Danmörku, en Ísland var alltaf fyrirheitna landið.“
Fleiri hafa gefið kost á sér í Reykjavík fyrir flokkinn, svo sem Halldór Auðar og Arndís Anna Gunnarsdóttir, lögmaður. Í vikunni gekk fyrrverandi þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Andrés Ingi, til liðs við flokkinn. Ekki er ljóst í hvoru kjördæmi hann fer fram.