Lög­maður Angjelin Sterka­j segir það stórt skref að ríkis­sak­sóknari telji að það hafi hugsan­lega skort laga­heimild til að dæma um­bjóðanda sinn til að sæta þyngri refsingu en sex­tán ára fangelsi. Í desember skilaði ríkis­sak­sóknari á­liti sínu á á­frýjunar­beiðnum fjór­menningana í Rauða­gerðis­málinu, sem óska öll eftir leyfi til að á­frýja til Hæsta­réttar.

Þann 28. októ­ber síðast­liðinn kvað Lands­réttur upp dóm í máli fjór­menningana vegna morðsins á Armando Bequ­iari. Fyrir Lands­rétt var dómur yfir Sterka­j þyngdur frá sex­tán ára fangelsi upp í tuttugu ár.

Þá voru þre­menningarnir sem sýknaðir voru í Héraðs­dómi Reykja­víkur sak­felldir og dæmd í fjór­tán ára fangelsi. Það eru þau: Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, fyrr­verandi kærasta Angjelin, Murat Seli­vrda og Shpetim Qerimi.

Allir sak­borningarnir óskuðu eftir leyfi Hæsta­réttar til þess að á­frýja dómi Lands­réttar. Í desember síðast­liðnum skilaði Sig­ríður Frið­jóns­dóttir, ríkis­sak­sóknari, sínu á­liti á á­frýjunar­beiðnum fjór­menningana.

Þar kemur fram að ríkis­sak­sóknari telji að hugsan­lega hafi skort laga­heimild til þess að dæma Sterka­j til að sæta þyngri refsingu en sex­tán ára fangelsi. Í lögum er heimild til þess að dæma ein­stak­ling í fangelsi í allt að tuttugu ár við til­teknar lög­á­kveðnar að­stæður. Í á­liti ríkis­sak­sóknara kemur fram að em­bættið telji vafa leika á um að þessar lög­á­kveðnu að­stæður hafi verið fyrir hendi í málinu.

Stórt skref

Odd­geir Einars­son, lög­maður Sterka­j segir í sam­tali við Frétta­blaðið að það hafi á­vallt verið þeirra skoðun að það hafi ekki verið laga­heimild til þess að þyngja dóm Sterka­j. „Okkar skoðun hefur verið frá upphafi að dómurinn sé í andstöðu við lög,“ segir Oddgeir.

„Við sendum á­frýjunar­beiðni á Hæsta­rétt þar sem við rök­studdum það. Ríkis­sak­sóknari tekur undir það og telur að það sé vafi á því að það hafi verið heimilt. Það er stórt skref, en Hæsti­réttur á eftir að á­kveða hvort þeir veiti á­frýjunina,“ segir Odd­geir.

Það er skoðun Odd­geirs að dómurinn hafi frá upp­hafi verið í and­stöðu við lög og að rétt væri að dómnum yrði hnekkt. Hann segir hins vegar ó­ljóst hvað Hæsti­réttur muni gera í málinu.

„Núna teljum við og ríkis­sak­sóknari að það séu skil­yrði fyrir á­frýjun, en það er samt mögu­leiki að Hæsti­réttur verði ó­sam­mála og synji því. En ég ætla ekkert að fara spá fyrir um líkur um það,“ segir Odd­geir.