Lögmaður Angjelin Sterkaj segir það stórt skref að ríkissaksóknari telji að það hafi hugsanlega skort lagaheimild til að dæma umbjóðanda sinn til að sæta þyngri refsingu en sextán ára fangelsi. Í desember skilaði ríkissaksóknari áliti sínu á áfrýjunarbeiðnum fjórmenningana í Rauðagerðismálinu, sem óska öll eftir leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar.
Þann 28. október síðastliðinn kvað Landsréttur upp dóm í máli fjórmenningana vegna morðsins á Armando Bequiari. Fyrir Landsrétt var dómur yfir Sterkaj þyngdur frá sextán ára fangelsi upp í tuttugu ár.
Þá voru þremenningarnir sem sýknaðir voru í Héraðsdómi Reykjavíkur sakfelldir og dæmd í fjórtán ára fangelsi. Það eru þau: Claudia Sofia Coelho Carvahlo, fyrrverandi kærasta Angjelin, Murat Selivrda og Shpetim Qerimi.
Allir sakborningarnir óskuðu eftir leyfi Hæstaréttar til þess að áfrýja dómi Landsréttar. Í desember síðastliðnum skilaði Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, sínu áliti á áfrýjunarbeiðnum fjórmenningana.
Þar kemur fram að ríkissaksóknari telji að hugsanlega hafi skort lagaheimild til þess að dæma Sterkaj til að sæta þyngri refsingu en sextán ára fangelsi. Í lögum er heimild til þess að dæma einstakling í fangelsi í allt að tuttugu ár við tilteknar lögákveðnar aðstæður. Í áliti ríkissaksóknara kemur fram að embættið telji vafa leika á um að þessar lögákveðnu aðstæður hafi verið fyrir hendi í málinu.
Stórt skref
Oddgeir Einarsson, lögmaður Sterkaj segir í samtali við Fréttablaðið að það hafi ávallt verið þeirra skoðun að það hafi ekki verið lagaheimild til þess að þyngja dóm Sterkaj. „Okkar skoðun hefur verið frá upphafi að dómurinn sé í andstöðu við lög,“ segir Oddgeir.
„Við sendum áfrýjunarbeiðni á Hæstarétt þar sem við rökstuddum það. Ríkissaksóknari tekur undir það og telur að það sé vafi á því að það hafi verið heimilt. Það er stórt skref, en Hæstiréttur á eftir að ákveða hvort þeir veiti áfrýjunina,“ segir Oddgeir.
Það er skoðun Oddgeirs að dómurinn hafi frá upphafi verið í andstöðu við lög og að rétt væri að dómnum yrði hnekkt. Hann segir hins vegar óljóst hvað Hæstiréttur muni gera í málinu.
„Núna teljum við og ríkissaksóknari að það séu skilyrði fyrir áfrýjun, en það er samt möguleiki að Hæstiréttur verði ósammála og synji því. En ég ætla ekkert að fara spá fyrir um líkur um það,“ segir Oddgeir.