Reykjavíkurborg mun fara í vitundavakningarátak á næsta ári gegn fordómum, áreitni og ofbeldi en mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð og menningar-, íþrótta- og tómstundaráð funduðu ásamt ofbeldisvarnarnefnd í nóvember um málið þar sem átakið var samþykkt einróma. Markmiðið er að allir borgarbúar upplifi sig velkomna á stofnunum og starfsstöðvum borgarinnar

„Þetta átak snýst í rauninni um það að það er okkar sem samfélag að stuðla að fræðslu um mannréttindi og máluefni minnihlutahópa, við berum sameiginlega ábyrgð á að öllum líði vel meðal okkar og við vitum það að þekking er öflugt vopn gegn fordómum,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, í samtali við Fréttablaðið.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Átakið í samstarfi við hagsmunarsamtök og nefndir borgarinnar

Lagt er til að stofnaður verði starfshópur og að næsta vor verði helgað átakinu á starfstöðvum borgarinnar en starfshópurinn skilar tillögum um tilhögun verkefnisins og drögum að kostnaðaráætlun í janúar. Við vinnu að átakinu verður leitað ráðgjafar og samstarfs við hagsmunarsamtök og grasrótarfélög, til að mynda Trans Ísland og Samtökunum ´78.

Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, íþrótta- og tómstundasviði og mannauðs- og starfsumhverfissviði en fulltrúar allra sviða hjá borginni munu einnig vinna með hópnum. Þá verður samráð haft við háskólasamfélagið, Jafnréttisstofu, Fjölmenningarsetur og samráðsnefndir Reykjavíkurborgar.

Fara yfir verkferla hjá borginni

Að sögn Dóru er átakið einnig hugsað sem fræðsla innan við til starfsfólks borgarinnar og til þess að fara yfir verkferla sem hjálpa starfsfólki að takast á við flókin mál sem geta komið upp. „Þetta er í rauninni til þess fallið að vekja athygli á því hvað við erum ríkara samfélag fyrir vikið, vegna þess að við erum opin, víðsýn og fjölbreytt,“ segir Dóra og bætir við að fræðsla sé lykillinn.

Hún segir að dæmi séu um að bæði starfsfólk og borgarbúar hafi upplifað óþægileg tilvik vegna þeirra stöðu en slíkt væri óboðlegt á starfsstöðvum borgarinnar. Hún tekur sem dæmi nýlega könnun þar sem kom fram að hinsegin fólk verði enn fyrir fordómum í íþróttum og að þörf væri á betri fræðslu um málefni hinsegin fólks.

„Allir njóta góðs af fræðslu og þó hún dugi ekki ein og sér til að valda straumhvörfum þá hefur hún veigamikil jákvæð áhrif á alls konar hópa sem mætti taka betur á móti, hvort sem það er í íþróttastarfi eða starfsemi borgarinnar,“ segir Dóra en hún vísar til þess að sömu sögu megi segja um málefni annara minnihlutahópa, til að mynda trans fólks, fólks af erlendum uppruna og fatlaðs fólks.

Mikil þörf á viðhorfsbreytingu

Þrátt fyrir að lögin séu skýr um málefni minnihlutahópa þurfi samfélagið að komast á sama stað. „Það er ákveðin leið til að hreyfa norm samfélagsins í ákveðna átt og það er meðal annars með fræðslu, það er í raun besta vopnið gegn fordómum og viðhorfum afturhalds, þannig að fólk skilji betur þær breytingar sem hafa orðið.“

„Við viljum fara á undan með góðu fordæmi og teljum það vera okkar skyldu sem opinber aðili og þar að auki stærsta vinnustað landsins, að vera metnaðarfull þegar kemur að þessu,“ segir Dóra enn fremur og bætir við að hún voni að átakið verði til þess að samfélagið verði opnara og að fólki líði betur.

„Ég held að við séum komin á mjög góðan stað hvað þetta varðar en við þurfum enn þá svolítið að gefa í til þess að tryggja þessa hugarfarsbreytingu og þennan skilning. Þegar kemur að auknum mannréttindum og að minnka fordóma, þá er ekki alltaf lausnin að fara þetta á hnefanum, við þurfum að koma til móts við fólk.“