„Okkar markmið er að allir fái rafmagn í dag,“ segir Helga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og formaður neyðarstjórnar hjá RARIK, í samtali við Fréttablaðið. Enn er rafmagnslaust á nokkrum bæjum í Skagafirði og á fleiri stöðum á Norður- og Austurlandi eftir óveðrið sem reið yfir landið á þriðjudag.

„Það er auðvitað eins og það er að við getum aldrei lofað þessu alveg hundrað prósent, en það er markmiðið okkar, já, að allir fái rafmagn í dag. En við erum náttúrulega bara að keyra á varavélum og öllu mögulegu þannig að við verðum að gera við í einhverja daga í viðbót,“ segir hún.

Um 80-90 starfsmenn vinna nú hörðum höndum að því að ná umræddu markmiði en að sögn Helgu þarf að gera við línur á ellefu stöðum á landinu. „Þetta er allt á Norðurlandi, frá og með Skagafirði og austur úr.“ Klárað var að reisa staura í Skagafirðinum í gær en verkefnið í dag er að strengja í þá víra.

16 gráðu frost á heimili sveitarstjórans

Bilunin er í Glaumbæjarlínu við Reynisstað og einnig eru nokkrir bæir úti á Skaga sem er rafmagnslaust á. „Þetta eru bæir sem við vorum að vinna í í gær og fyrradag að koma á díselrafstöðum og gasofnum og slíku svo það svo sem á ekki að væsa um fólkið,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.

„Við erum náttúrulega að reyna að koma í veg fyrir köld híbýli, það er sextán gráðu frost hérna heima hjá mér núna, þannig það er verulega kalt,“ heldur hann áfram og segir rafmagnsleysið auðvitað hafa haft vond áhrif á alla íbúa sveitarfélagsins. „Já, þetta er ekki búið að vera gott ástand hérna.“