Sex vegfarendur slösuðust í sex umferðarslysum í síðustu viku á höfuðborgarsvæðinu en alls voru 45 umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu dagana 1. til 7. maí.

Þetta kemur fram á vef lögreglunnar.

Síðustu helgi ók ökumaður yfir grasbala og þvert yfir innkeyrslu á einkalóð við Blesugróf í Bústaðahverfi og hafnaði bifreiðin á stóru tré.

Ökumaðurinn kvaðst hafa stigið óvart á eldsneytisgjöfina í stað þess að hemla og því ekið á tréið á talsverðri ferð. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild í kjölfarið en ekki er vitað um meiðsl hans.

Fyrr í síðustu viku var bifreið ekið vestur Laugaveg á vinstri akrein inn á gangbraut í þann mun sem gangandi vegfarandi fór yfir veginn og í veg fyrir bifreiðina, hann var fluttur á slysadeild.

Nokkur vitni sáu slysið og sögðust hafa séð grænt ljós á götuvitum fyrir akandi umferð og töldu líklegt að rautt ljós hafi verið fyrir gangandi þegar vegfarandinn hljóp viðstöðulaust yfir gagnbrautina í veg fyrir bifreiðina.

Lögreglan vekur athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari alltaf varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.