Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um umferðarslys í Mosfellsbæ klukkan hálf tíu í gærkvöldi en ökumaður hafði þar misst stjórn á bíl sínum á Þingvallavegi.
Ökumaðurinn ók í kjölfarið út af veginum og hafnaði á hvolfi í skurði en ökumaðurinn var fluttur á bráðadeild til aðhlynningar í kjölfarið. Hann var í kjölfarið handtekinn grunaður um ölvun við akstur og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Ók á kantstein
Á ellefta tímanum í gærkvöldi var síðan ökumaður stöðvaður í miðbænum eftir að hann hafði ekið á kantstein og tjónað bíl sinn.
Ökumaðurinn var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu og sölu fíkniefna og lyfja, og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.
Datt af rafmagnshlaupahjóli
Þá var tilkynnt um slys í Hlíðarhverfi skömmu fyrir miðnætti þar sem ung kona hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli og meiðst á andliti.
Konan var flutt með sjúkrabíl á bráðadeild til aðhlynningar en áverkar hennar eru sagðir vera á höku og munni.
Eftirlit með skráningu
Meðal annarra verkefna lögreglu í gær voru þjófnaður í verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi, akstur án gildra ökuréttinda og akstur undir áhrifum fíkniefna.
Lögregla viðhafði einnig eftirlit með ástandi bifreiða í nótt þar sem skráningarmerki voru fjarlægð af 14 bílum sem höfðu ekki fengið skoðun eða voru ótryggðir. Ók út af veginum og hafnaði á hvolfi í skurði