Rútu var ekið utan í lög­reglu­bíl í Hafnar­firði í gær­kvöldi þannig að af hlutust minni­háttar skemmdir, sam­kvæmt dag­bók lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu. Þá kom síðar upp eldur í bíl í Hafnar­firði en ekki er vitað hver elds­upp­tök voru. Skemmdir urðu á nær­liggjandi bílum vegna eldsins.

Sjö ein­staklingar þurfti að gista í fanga­geymslum eftir gær­kvöld og nótt en það telst nokkuð mikið á virkum degi, sam­kvæmt dag­bókinni. Af­skipti voru höfð af fimm ein­stak­lingum vegna fíkni­efna­mála og fjóra vegna gruns um akstur undir á­hrifum á­fengis og/eða fíkni­efna.

Lög­reglan reyndi að stöðva öku­mann sem hafði verið sviptur öku­réttindum eftir að hafa í­trekað ekið undir á­hrifum. Maðurinn reyndi að komast undan og úr varð stutt eftir­för sem endaði með því að öku­maðurinn lenti á bíl. Hann reyndi þá að hlaupa en náðist af lög­reglu.

Öku­maðurinn reyndist undir á­hrifum fíkni­efna og með fíkni­efni í fórum sér. Annar öku­réttinda­laus öku­maður ók ó­vart á grind­verk ná­granna síns.

Eftirlýstur reyndi að hlaupa frá lögreglu

Fram­kvæmd var hús­leit í Kópa­vogi vegna gruns um ræktun fíkni­efna. Reyndist það vera rétt, sam­kvæmt dag­bók lög­reglu, og var hald lagt á fíkni­efni og búnað til ræktunar. Einn var hand­tekinn og vistaður í fanga­geymslu vegna málsins.

Einn var hand­tekinn í miðju inn­broti í fyrir­tæki í austur­borginni. Hann hafði spennt upp glugga að hús­næðinu og farið þar inn. Einn nef­brotnaði í á­tökum í Kópa­vogi undir morgun og þurfti að fara með sjúkra­bíl á bráða­mót­töku. Nef­brjóturinn gistir hins vegar í fanga­geymslu, sam­kvæmt dag­bókinni.

Tveir eftir­lýstir aðilar voru hand­teknir í mið­borginni og færðir á lög­reglu­stöð. Þar reyndi annar að flýja en „varð að láta í minni pokann fyrir þraut­þjálfuðum laganna vörðum,“ eins og segir í dag­bókinni.