Slökkvilið Borgarfjarðar var kallað út á sjötta tímanum í gærkvöldi eftir að ökumaður ók af stað með dæluna enn í stútnum við bensínstöð Orkunnar í Borgarnesi. Hvorki maðurinn né dælan hefur skilað sér.

„Hann fór bara með draslið með sér,“ segir Bjarni Þorsteinsson slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð.

„Menn eru svo stressaðir, rjúka af stað og margt fylgir með. Þetta kemur sjaldan fyrir í Borgarbyggð en er kannski algengara í Reykjavík. Þetta gerist þegar menn eru uppteknir í símunum.“

Viðskiptavinurinn gleymdi að taka dæluna úr stútnum eftir að hafa dælt dísilolíu í bílinn. Olíugildrurnar á bílastæðinu tóku megnið af olíunni og dreifðu slökkviliðsmennirnir lífrænum hreinsiefnum yfir það sem eftir var til að brjóta niður olíuna.

Að sögn Bjarna var ekki lokað strax fyrir umferð þegar óhappið varð og barst því olía með bílum sem óku um svæðið. Bjarni segir að slíkt getur skapað eldhættu og hálku.

„Þessi olía sem fer niður er það sem er í slöngunni. Menn keyra ofan í þetta og það skapast hálka, fyrir utan hvað þetta er mikill sóðaskapur,“ segir Bjarni í samtali við Fréttablaðið.

Þrifin tókust vel og höfðu sex slökkviliðsmenn lokið við að hreinsa svæðið rúmum tveimur klukkustundum eftir að útkallið barst.