Á tíunda tímanum í gærkvöldi ætluðu lögreglumenn að hafa afskipti af ökumanni í Háaleiti- og Bústaðahverfi en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi að komast undan.

Skömmu síðar missti ökumaður bifreiðarinnar stjórn á bifreiðinni og ók framan á tvær bifreiðar, er segir í dagbók lögreglu.

Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, aka sviptur ökuréttindum, hraðakstur og vera valdur að umferðaróhappi eða slysi. Ökumaðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Tvær líkamsárásir

Klukkan 17:02 var maður handtekinn í sama hverfi grunaður um líkamsárás og var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Tilkynning barst um aðra líkamsárás í Kópavogi á þriðja tímanum í nótt. Tveir menn voru handteknir og vistaðir í fangageymslu.

Klukkan 23:50 voru höfð afskipti af 16 ára stelpu sem var farþegi í bifreið þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hún er grunuð um vörslu fíkniefna. Málið var unnið með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til Barnaverndar að sögn lögreglu.

Ellefu ökumenn stöðvaðir

Klukkan 17:40 voru höfð afskipti af manni og konu á Austurvelli sem eru grunuð um neyslu og vörslu fíkniefna.

Þá voru ellefu ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur án ökuréttinda eða undir áhrifum áfengis eða fíkniefna í gærkvöldi og nótt.