Aðili á hlaupahjóli ók á 6 ára gamalt barn á Austurvelli í dag. Barnið hlaut lítils háttar meiðsli eftir áreksturinn. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögregla þurfti að stöðva samkvæmi í Vesturbæ Reykjavíkur klukkan um níu í morgun eftir að kvartanir bárust frá nágrönnum sem höfðu fengið sig fullsödd af partýhaldi og hávaða.

Annað var upp á teningnum stuttu síðar í Vesturbænum en þá var lögregla kölluð til vegna hávaðasamra framkvæmda. Aðilarnir sem voru vaknaðir eldsnemma til að hefja framkvæmdir í húsi sínu voru beðnir um að bíða með framkvæmdirnar svo nágrannar fengju svefnfrið.

Aðili var handtekinn fyrir líkamsárás og hótanir í Breiðholti. Hann var vistaður í fangaklefa lögreglu.

Þá var brotist inn í tvær bifreiðar í miðbæ Reykjavíkur og verðmætum stolið.