Lögreglan í Brussel í Belgíu handtók karlmann á dögunum sem hrinti konu í veg fyrir járnbrautarlest í borginni. Atvikið átti sér stað á hinni fjölförnu Rogier-lestarstöð síðastliðinn föstudag.
Konan getur væntanlega þakkað fyrir að vagnstjórinn var með athyglina í lagi, en eins og meðfylgjandi myndband sýnir náði hann að snarhemla rétt áður en vagninn fór yfir konuna.
Konan slasaðist töluvert við fallið enda lenti hún með höfuðið á teinunum. Maðurinn var handtekinn á annarri lestarstöð skammt frá og verður hann ákærður fyrir tilraun til manndráps. Ekki er talið að maðurinn hafi þekkt konuna og er því alls óvíst hvað honum gekk til.
Vegfarendur á lestarstöðinni hlúðu að konunni þar til lögregla og sjúkraflutningamenn komu á vettvang. Guy Sablon, talsmaður lestarfyrirtækisins STIB, segir við Brussel Times að vagnstjórinn hafi sýnt frábær viðbrögð en honum hafi eðlilega verið mjög brugðið.