Dagur B. Eggerts­son, borgar­stjóri segir að það sé ó­hugnan­legt að heyra af skemmdar­verkum á hús­næði Sósíal­ista­flokksÍs­lands og hótunum í garð Gunnars Smára Egils­sonar. Hann segist þekkja þetta sjálfur, en skotið var á bíl Dags fyrir utan heimili fjöl­skyldunnar hans.

Gunnar Smári greindi upp­haf­lega frá því inni á um­ræðu­hóp Sósíal­ista­flokksins á Face­book í gær að honum hefðu borist þessar líf­láts­hótanir. Jafn­framt greindi hann frá því að annar maður hefði gert að honum að­köll fyrir utan heimili hans vegna meintra glæpa sósíal­ismans og hefði hrópað: „Viva Bjarni Ben!“.

Auk þessara per­sónu­hótana varð Sósíal­ista­flokkurinn í gær fyrir skemmdar­verkum þar sem tveir gluggar voru brotnir á fé­lags­mið­stöð Vor­stjörnunnar, þar sem Sósíal­ista­flokkurinn hefur að­stöðu. Gunnar Smári segist gruna að annar mannanna sem hótuðu honum hafi verið að merki þótt ekki sé hægt að vita það með vissu.

„Ógnanir, hótanir, á­rásir og of­beldi á að for­dæma, skil­yrðis­laust, hver sem í hlut á en það er grund­vallar­at­riði í lýð­ræðis­sam­fé­lagi að mynda ó­rofa sam­stöðu gegn slíku þegar stjórn­mála­flokkar og stjórn­mála­fólk er annars vegar,“ segir Dagur.

Dagur segir að hann óskar engum að ganga í gegnum slíka árás.

„Það er í mínum huga já­kvætt og eðli­legt að ræða harða orð­ræðu og haturs­fulla í sam­hengi við hótanir og of­beldis­verk og það hef ég gert áður. Um­ræðan þarf að batna og koma upp úr skot­gröfunum - og það á að ríkja al­gjör sam­staða þvert á alla pólitík og flokks­línur gegn of­beldi og hótunum,“ segir Dagur.