Mikið álag var á bráða­mót­töku Land­spítala um síðustu helgi. Frá föstu­degi til sunnu­dags komu 536 ein­staklingar á bráða­mót­töku, sem telst nokkurn veginn í meðal­lagi, en ó­venju mikið álag var að­fara­nótt sunnu­dags og var tals­verður hluti þeirra tengdur skemmtana­lífi helgarinnar.

„Það var mjög mikið flæði hér eftir skemmtana­lífið um helgina, sér­stak­lega þungt að­fara­nótt sunnu­dagsins,“ segir Hjalti Már Björns­son, bráða­læknir á Land­spítalanum í Foss­vogi.

Hjalti segir að starfs­fólki bráða­mót­tökunnar hafi tekist að sinna öllum þeim sjúk­lingum sem þurfti að sinna. Hann segir bráða­mót­tökuna þó enn vera að fást við al­var­lega inn­lagnar­kreppu sem hefur valdið því að þjónustan undan­farið hafi ekki verið jafn skjót og æski­legt er.

„Eins og áður er Land­spítali yfir­fullur og er að annast fleiri sjúk­linga en hann hefur pláss til að gera með full­nægjandi hætti. Vegna þessa eru inn­lagðir sjúk­lingar vistaðir á­fram á bráða­mót­töku og það gerir okkur erfitt fyrir að veita full­nægjandi bráða­þjónustu á svona á­lags­helgum,“ segir Hjalti.

Miklar raðir mynduðust fyrir utan bari og skemmtistaði um helgina.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Al­var­legt á­stand vegna inn­lagnar­kreppu

Mikið hefur verið rætt um al­var­legt á­stand á bráða­mót­töku undan­farið sem or­sakast af því að illa gengur að út­skrifa sjúk­linga til móts við þá sem þurfa að leggjast inn.

Í mars síðast­liðnum greindi Frétta­blaðið til að mynda frá því að einn ein­stak­lingur hefði þurft að bíða hátt í fjóra sólar­hringa eftir því að fá pláss á legu­deild.

„Það er mikið vanda­mál á­fram í rekstri Land­spítala og við byggjum enn þá vonir til þess að ráð­herra og fram­kvæmda­stjórn Land­spítalans muni breyta rekstrinum þannig að sjúk­lingar sem þurfa fái við­eig­andi legu­deildar­pláss án tafar,“ segir Hjalti.

Töluvert álag var hjá lögreglu og á bráðamóttöku um helgina.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Segir á­fengi skað­legasta vímu­gjafann

Hjalti segir af­leiðingar ó­hóf­legrar á­fengis­neyslu hafa verið á­berandi hjá sjúk­lingum bráða­mót­töku um helgina.

„Við sjáum það mjög skýrt þegar fólk drekkur ó­hóf­lega af á­fengi hvernig það veldur með beinum hætti slysum og miklu á­lagi á deildinni og viljum þess vegna hvetja alla til að fara var­lega í að nota á­fengi og sér­stak­lega ekki vera að drekka það fram á nótt.“

Var um að ræða til­felli sem rekja má beint til á­fengis­neyslu á borð við á­fengis­eitranir eða var fólk að koma sér í vand­ræði vegna gá­leysis?

„Á­fengi er náttúr­lega mjög skað­legur vímu­gjafi sér­stak­lega ef að þess er neytt í ó­hófi. Þó að það sé skað­semi af öðrum vímu­gjöfum þá er það til­finning starfs­fólksins á bráða­mót­töku að það sé ó­hóf­leg neysla á­fengis sem er það sem að veldur mestu vinnu­á­lagi á deildinni og veldur því að fjölda­margir á svona skemmtana­helgum þurfa að leita til deildarinnar. Það er þá ýmist vegna á­verka sem það verður fyrir eða líkams­á­rása,“ segir Hjalti.

Hjalti hvetur Ís­lendinga til að njóta sumarsins og góða veðursins en biðlar til fólk sem neytir á­fengis að gera það í hófi og gæta fyllsta öryggis, byrja snemma og fara fyrr heim.