Guðmundur Felix Grétarsson er nú á batavegi eftir að læknar í Lyon græddu á hann tvo handleggi í síðustu viku, en hann hefur beðið í rúma tvo áratugi eftir aðgerðinni.

Aðspurður um hvaða þýðingu aðgerðin hafi fyrir hann og fjölskyldu hans, verður Guðmundur klökkur og er ljóst að ferlið hefur verið ákveðinn tilfinningarússíbani.

„Ég held að aðgerðin hafi verið erfiðari fyrir fjölskylduna en mig. Þegar ég vaknaði fyrir 23 árum síðan eftir slysið þá situr mamma mín við rúmið,“ segir hann og þarf að gera hlé á máli sínu því tilfinningarnar bera hann ofurliði.

„Hún er búin að gera það í 23 ár en hún hefur ekki enn þá getað komið út af þessu helvítis COVID.“

Þakklátur fjölskyldunni

Þá hefur hann ekki enn getað hitt dætur sínar og barnabörn og fagnað áfanganum stóra með þeim. „Þetta fólk er auðvitað búið að standa svo þétt við bakið á mér,“ segir hann og berst við tárin.

Hann hendir grín að því og segist hafa grunað að hann ætti að taka viðtalið í gegnum síma frekar en í gegnum myndsímtal.

„Fjölskyldan hefur komið mér í gegnum þetta allt saman. Hún hefur verið með mér í þessu frá upphafi.“

Langri bið lokið

Símtalið sem Guðmundur hafði lengi beðið eftir, að gjafi hefði fundist, kom þann 12. janúar síðastliðinn en þá voru 23 ár, upp á dag, frá því að hann missti hendurnar í vinnuslysi.

Eftir símtalið gerðust hlutirnir hratt en um var að ræða verulega flókna og umfangsmikla aðgerð sem fleiri en 50 aðilar komu að. Hann vaknaði síðan þremur dögum síðar og var þá kominn með handleggi.

„Fyrsta sem ég hugsaði þegar ég vaknaði var bara, hvernig í fjandanum datt mér þetta í hug?“ segir Guðmundur.

Vel þess virði

Fyrstu stundirnar voru algjör martröð, að hans sögn. Hann lýsir því að hafa fundið fyrir miklum verkjum, auk þess sem hann var umkringdur alls konar tækjum og fólki sem hann þekkti ekki.

„Þetta er búið að vera rosalega erfitt, þetta er búinn að vera mikill sársauki,“ segir Guðmundur. „En þetta er vel þess virði.“

Kippir sér ekki upp við biðina

Nú tekur við strangt endurhæfingarferli og á það eftir að koma í ljós á næstu árum hversu vel aðgerðin heppnaðist. Hann kippir sér þó lítið upp við biðina. „Loksins hef ég eitthvað að gera, annað en að bíða.“

Hann segist hafa lært ýmislegt um sjálfan sig í gegnum ferlið. Hann sé vissulega sami maðurinn og hann var fyrir slysið, en hafi þroskast töluvert.

„Ég átti augnablik fyrir 23 árum sem var óheppilegt en allt frá þeim tíma hefur verið blessun.“

Guðmundur Felix Grétarsson er þakklátur fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn undanfarna áratugi og lítur framtíðina björtum augum.
Mynd/Aðsend