Þingmanni úr sama flokki og ræðumaður verður ekki heimilt að veita andsvar á þingfundum á Alþingi héðan í frá. Einnig verður óheimilt að veita andsvör við fimm mínútna endurteknar ræður.

„Svokallað samsvar verður því ekki heimilað,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þegar hann tilkynnti um breytingarnar við þingsetningu 150. löggjafarþings í dag.

Steingrímur segir að með þessum breytingum sé verið að færa andsvörin í þá horf sem til var stofnað í upphafi.

Breytingin lýtur að verkreglum um framkvæmd andsvara og krefst hún ekki breytinga á þingsköpum, enda hefur forseti sjálfstætt vald til að ákveða framkvæmd andsvara.

Steingrímur segist ætla að huga að því að vinna að frekari endubótum á starfsháttum þingsins en hann setti saman sérstaka nefnd með fulltrúum úr öllum þingflokkum. Nefndin hefur þegar haldið sinn fyrsta fund. Hann segir mikilvægt að ljúka endurskoðun fyri lok kjörtímabils og að endurbæturnar, nýjar eða breyttar starfsreglur, gætu tekið gildi við upphaf næsta kjörtímabils.

Breytingarnar á framkvæmd andsvara gætu komið í veg fyrir annað málþóf eins og átti sér stað í orkupakka umræðunum. Sú umræða var sú lengsta í sögu Alþingis, lengri en deilurnar um Icesave-samningana árið 2010.

Þing er sett í dag í 150.sinn. Athöfnin hófst klukkan 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn gengu fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu fyrir guðsþjónustu. Að henni lokinni gengu forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.