Fyrirtækinu Álfasögu ehf. er óheimilt að nota orð- og og myndmerkið „máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“. Að þessu komst Héraðsdómur Reykjaness í dómi sem féll í dag.

Fyrirtækið Eldum Rétt ehf. óskaði eftir því í júní í fyrra að lögbann yrði sett á notkun auðkennisins „máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“ sem og að lögbann yrði sett á vefsíðuna www.bordumrettt.is.

Slagorðin of lík

Eldum rétt var stofnað árið 2014 og hefur notað heitið Eldum Rétt frá því fyrirtækið var starfrækt.

Fyrirtækið selur matarpakka sem viðskiptavinir kaupa og elda sjálfir samkvæmt uppskrift og nota hráefni sem fylgir með. Viðskiptamódelið hefur notið mikilla vinsælda hjá íbúum á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2017 óskaði Álfasaga ehf. eftir skráningu vörumerkisins „Borðum rétt“ fyrir svipaða þjónustu og Eldum Rétt. Álfasaga ehf. er rekstrarfélag í eigu matreiðslufyrirtækisins Dagný & Co.

Eldum rétt hafði samband við Álfasögu þar sem tekið var fram að Eldum rétt væri rétthafi vörumerkisins sem Álfasaga bryti gegn með notkun á orð- og myndmerkinu „Borðum rétt.“ Álfaborg á þá að hafa svarað að fyrirtækið ætlaði sér ekki að nota „Borðum rétt“ sem vörumerki.

26. október 2017 sótti Álfaborg svo um skráningu hjá Einkaleyfastofunni á vörumerkinu „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt.“

Í júní 2019 þegar Eldum rétt óskaði eftir lögbanni á ofangreint var fallist á lögbannsbeiðnina en dómsmál var höfðað til staðfestingar á henni í desember á síðasta ári. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði þá staðfestingu lögbannsins og vísaði kröfu Eldum rétt frá dómi.

Í dómnum sem var kveðinn upp í dag segir að Eldum rétt hafi talið auðkennið sem Álfasaga hefur notað fyrir vöru sína líkjast sínu eigin á margan hátt. Í niðurstöðum dómsins er tekið undir með Eldum rétt. Þar segir að vörumerki Álfasögu sé svo líkt vörumerki Eldum rétt að það „brjóti í bága við lögvarinn rétt stefnanda um að nota og auglýsa vörumerki sitt [...]“. Af sömu ástæðu má Álfasaga ehf. ekki starfrækja síðuna www.bordumrett.is