Kærunefnd húsamála úrskurðaði í fyrra að leigusala væri óheimilt að innheimta verðbætur á húsaleigu eftir á, þrátt fyrir að verðtryggingarákvæði sé í leigusamningi. Ársskýrsla Leigjendaaðstoðarinnar kemur út í dag.

Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna bárust tæp þúsund erindi á síðasta ári, 82 á mánuði, og fjölgaði erindum um 12,2 prósent frá árinu 2021.

Fjöldi erinda á mánuði var 72 árið 2021.

Leigjendur eru stærsti hópurinn sem nýtir sér þjónustu Leigjendaaðstoðarinnar, eða 84 prósent. Hlutfall leigusala er 14 prósent, eða 142 erindi, sem er talsverð aukning frá árinu 2021 þegar leigusalar voru 11 prósent þeirra sem nýttu sér þjónustuna, eða 95 talsins.

Fyrirspurnum á öðru tungumáli en íslensku fjölgaði um 87 prósent milli ára og voru þær 364 í fyrra.

Athygli vekur að flokkurinn „riftun“ var með um 17 prósent fyrirspurna frá þeim sem tala erlent tungumál en 13 prósent frá íslenskumælandi árið 2021, en í fyrra varð mikil fækkun í þessum málaflokki og taldi hann 11 prósent fyrir báða hópa.

Á síðasta ári var flokkurinn „tryggingar“ um 20 prósent fyrirspurna hjá þeim sem tala erlend tungumál en 13,4 prósent frá íslenskumælandi. Árið 2021 var þessi flokkur um 13 prósent hjá báðum hópum. Þetta kann að benda til þess að meira sé um að neytendum sé neitað um endurgreiðslu tryggingarfjár. „Við vonum samt að þetta stafi af því að sífellt fleiri leigjendur þekki til Leigjendaaðstoðarinnar og leiti sér aðstoðar,“ segir Kolbrún Arna Villadsen, stjórnandi Leigjendaaðstoðarinnar.

Í skýrslunni er birt reynslusaga þar sem reyndi á tungumálaerfiðleika leigjanda og aðstoð Leigjendaaðstoðarinnar við gerð kæru til kærunefndar húsamála.

Málið snerist um að leigusali neitaði að endurgreiða tryggingafé upp á 330 þúsund krónur við skil íbúðar.

Leigjandi hafði leigt hjá leigusala í rúm þrjú ár og ekki var ágreiningur um skilin á hinu leigða né neitt er tengdist þeim, en aftur á móti taldi leigusali að leigjandi skuldaði um 640 þúsund vegna vangoldinnar leigu.

Hélt leigusali því eftir tryggingu. Samkvæmt leigusala kom fram í leigusamningi að leiga myndi taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs og væri skuldin tilkomin vegna þessa. Leigjendaaðstoðin taldi leigusala ekki hafa heimild til afturvirkrar hækkunar þar sem hann hafði ekki nýtt sér hana á leigutíma.

Leigjendaaðstoðin reyndi milligöngu í málinu en þar sem leigusali og lögmaður hans töldu að um lögmæta kröfu væri að ræða og eina tillaga þeirra að málalykt var að lækka meinta skuld niður í 330 þúsund krónur ráðlagði Leigjendaaðstoðin leigjandanum að leggja málið fyrir kærunefnd húsamála. Sendi leigjandi inn kæru sem var vísað frá þar sem hún barst ekki á íslensku. Í kjölfarið aðstoðaði Leigjendaaðstoðin leigjanda við að útbúa kæruna á íslensku og var niðurstaða kærunefndarinnar að leigusala bæri að endurgreiða leigjanda tryggingu að fullu.

Með þessum úrskurði leikur enginn vafi á því lengur að leigusala er óheimilt að innheimta verðbætur á leigu eftir á, þrátt fyrir að verðtryggingarákvæði sé í leigusamningi.

Kolbrún Arna segir Leigjendaaðstoðina hafa nýtt sér þjónustu Language Line til að málavextir lægju skýrt fyrir í málinu. Að hennar sögn eru vísbendingar um að þeir sem ekki eru íslenskumælandi þekki síður réttindi sín sem leigjendur. Hlutfallslega fleiri erindi komi á erlendum tungumálum en íslensku um atriði eins og tryggingar, greiðslu leigu og aðgengi leigusala, auk þess sem Leigjendaaðstoðin hafi oftar milligöngu um slík erindi. Enn fremur endar mun hærra hlutfall erinda hjá kærunefnd húsamála þegar leigjendur eru ekki íslenskumælandi.

Kolbrún Arna.