Um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra, Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, mælti í gær á þingi fyrir breytingu á lögum sem varða notkun burðar­poka úr plasti.

Lagt er fram í frum­varpinu að frá með 1. júlí á þessu ári verði ó­heimilt að af­henda hvers kyns burðar­poka, sama hvort þeir eru úr plasti eða ekki, án endur­gjalds á sölu­stöðum. Mælst er til þess að gjaldið skuli vera sýni­legt á kassa­kvittun. Bannið tekur ekki til plast­poka sem eru sölu­vara í hillum verslana, svo sem nestis­poka og rusla­poka sem seldir eru margir saman í rúllum.

Frá og með 1. janúar árið 2021 er síðan í frum­varpinu gert ráð fyrir því að verslunum verði ó­heimilt að af­henda burðar­poka úr plasti, hvort sem það er með eða án gjalds. Bannið á við um plast­poka en ekki burðar­poka úr öðrum efnum.

Tveir af þremur hlynntir banni

Burðarplastpokar hafa þegar verið bannaðir í fjölda ríkja og segir í tilkynningunni að nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum séu hlynntir banni á einnota plastpokum í verslunum, samkvæmt könnun MMR frá í október síðastliðnum.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir Guðmundur að banninu sé ekki ætlað að vera „allsherjarlausn á plastvandamálinu, heldur ein aðgerð af mörgum.“

Hann segir enn fremur að verkefnið sé umfangsmikið og að nauðsynlegt sé að líta til ýmissa lausna. Þar séu plastpokarnir eitt skref.

„Hér er hins vegar um mikilvægan áfanga að ræða. Með því að banna plastpoka tökumst við á við það mikla magn plastpoka sem er í umferð en höfum um leið víðtækari áhrif. Aðgerðin snertir daglegt líf okkar og eykur vitund okkar um plast og notkun þess. Þetta virkjar okkur með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningunni.

Frumvarpið fór til umhverfis- og samgöngunefndar eftir fyrstu umræðu í gær á þingi. 

Ganga lengra en tilskipun

Frumvarpið er hluti af innleiðingu tilskipunar frá Evrópusambandinu sem miðar að því að draga úr notkun plastpoka. Frumvarpið gengur þó lengra en lágmarkskröfur tilskipunarinnar gera ráð fyrir. Í tilskipuninni er ríkjum heimilt að undanskilja þynnstu pokana en eru hvött til þess að gera það ekki. Með frumvarpinu, segir í tilkynningu, verður Ísland við þeirri hvatningu.

Spurt og svarað um bannið

Sem hluti af kynningu frumvarpsins og aðgerðunum sem því fylgja hefur ráðuneytið enn fremur útbúið langan lista af svörum við ýmsum spurningum varðandi bannið. Þar er, til dæmis, farið yfir hverju bannið breytir, hvað sé hægt að nota undir heimilissorpið í stað plastpokanna, hvort maíspokar séu verri fyrir umhverfið en plastpokar, umhverfisáhrif margnota poka og margt annað.

Tilkynning ráðuneytisins er aðgengileg hér og spurt og svarað um burðarplastpokabann hér.

Með frumvarpinu fylgir ráðherra eftir tillögum samráðsvettvangs um aðgerðir í plastmálefnum sem skilaði honum ýmsum tillögum í nóvember á síðasta ári. Bann við burðarplastpokum var ein þeirra.