Á bak við veitingastaðinn stendur sama þrenningin og á bak við Vínstúkuna Tíu sopa, en það eru þeir Ólafur Örn Ólafsson, Bragi Skaftason og Ragnar Eiríksson, en við náðum tali af þeim síðastnefnda á lokasprettinum fyrir opnun.

„Þetta er búin að vera löng fæðing en ég held að við höfum verið farnir að ræða að opna stað í þessu rými áður en við opnuðum Vínstúkuna,“ segir Ragnar, en heimsfaraldur tafði opnun sem upphaflega var ráðgerð fyrir ári síðan.

„Óli er því búinn að sitja yfir þessu og ofhugsa þetta að eigin sögn í tvö ár, en þetta er svolítið hans hugarfóstur,“ segir Ragnar og á þá við meðeiganda sinn Ólaf Örn Ólafsson vínþjón.

Veitingastaðurinn er til húsa í hinu sögufræga EImskipshúsi við Pósthússtræti. Fréttablaðið/Anton Brink
Rýmið hefur verið fagurlega endurhannað af bresku innanhúshönnuðinum T. B. Bennett í útfærslu Traðar arkitektastofu og íslensk samtímalist frá Gallerí Porti  fær að njóta sín á veggjunum.  Mynd/Aðdend

Hráefni sem sést sjaldan

Ragnar stýrir eldhúsi staðarins en hann var yfirkokkur á veitingahúsinu Dill þegar það hlaut Michelin stjörnu.

„Við ætlum að gera sjávarréttum mjög hátt undir höfði og nota óhefðbundið hráefni.“

Sem dæmi nefnir Ragnar beitukóng sem framreiddur verði eins og sniglar eru framreiddir í Frakklandi.

„Við erum líka með reyktan ál og ufsa sem er frábær fiskur en er sjaldnast notaður á seðli.“

Boðið verður upp á íslenskan fisk og stuðst við evrópska matreiðslu með smá tvisti. Opið verður fyrir bæði hádegis- og kvöldverð og eins er ætlunin að bjóða upp á bröns frá og með næstu helgi.

„Við ætlum að vera með óhefðbundið bröns hlaðborð, fisk og svolítið heilsusamlega nálgun, það verður ekki allt löðrandi í beikoni,“ segir Ragnar í léttum tón.

„Ég vil að hráefnið fái að njóta sín og sé ekki of mikið að yfirkeyra allt annað, ég segi alltaf að það voru bara þrír gæjar í Nirvana og það virkaði,“ segir hann að lokum.