Forsætisráðherra Nýja Sjálands, Jacinda Ardern, tilkynnti í dag að hún hafi fyrirskipað sjálfstæða rannsókn á aðstæðum í kringum fjöldamorðin í tveimur moskum í borginni Christchurch þann 15. mars síðastliðinn.

Ardern tilkynnti á blaðamannafundi að rannsóknarnefndin myndi rannsaka hvort lögreglan og leyniþjónusta gæti hafa gert meira til að koma í veg fyrir hryðjuverkin. Hún sagði að nefndin, sem verður óháð, muni skila ítarlegri skýrslu.

„Það er mikilvægt að alls staðar verði leitað til að komast að því hvernig kom til þessara hryðjuverka og hvernig hefði verið hægt að koma í veg fyrir það,“ sagði Ardern á blaðamannafundi í Wellington fyrr í dag.

„Ein spurning sem við þurfum að svara er hvort við hefðum getað vitað meira eða ekki,“ bæti Ardern við.

Hún sagði að hluti af rannsókninni yrði að kanna aðgengi að vopnum og hlutverk samfélagsmiðla í árásinni. Í kjölfar árásarinnar ákváðu stjórnvöld að herða vopnalöggjöf. Allar gerðir hríðskotariffla og hálfsjálfvirkra skotvopna voru bannaðir. Vopnin eru sambærileg þeim sem notuð voru í skotárásinni í moskunum.

Ástralskur maður sem er hægri-öfgamaður hefur verið kærður fyrir eitt morð í tengslum við skotárásina og mun væntanlega vera ákærður fyrir fleiri. Ardern hefur útilokað að breyta lögum á þann hátt að hægt verði að dæma hann til dauðarefsingar. Dauðarefsing var afnumin í lögum í Nýja-Sjálandi árið 1989.

Greint er frá á BBC.