„Dagurinn í dag er dagurinn þegar allir tala við alla,“ segir Þórdís Lóa Þórhallssdóttir, oddviti Viðreisnar um myndun meirihluta í borginni.
Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna er á sömu skoðun, að ákveðin ögurstund kunni að vera uppi.
„Ég held að ákveðin lykilsamtöl eigi sér stað í dag,“ segir Hildur.
Þórdís Lóa segist reikna með að tíðindi gætu orðið ekki síðar en á morgun. Ómögulegt sé þó að segja hvaða meirihluti komi upp úr kortunum.
Samfylking, píratar og Viðreisn ætla að standa saman í bili í meirihlutaviðræðum að hennar sögn. Ef næst saman með þeim og Framsókn segir Þórdís Lóa að sér lítist vel á samstarfið ef málefni og áherslur bjóði upp á slíkt.
„Dagurinn í dag er dagurinn þegar allir tala við alla."
Spurð hvort Þórdís Lóa óttist að Viðreisn verði skilin eftir til að einfalda flækjustigið í ljósi þeirrar staðreyndar að samanlagt fylgi pírata, Samfylkingar og Framsóknar dugar til að mynda 12 manna meirihluta, svarar hún: „Við flokkarnir þrír erum búnir að tengja okkur saman á grundvelli þess að fjölbreytileiki skoðana skipti máli. Í því ljósi höfum við tengt okkur saman."
Hildur Björnsdóttir, segir að Þórdís Lóa hafi ekki útilokað að starfa saman með Sjálfstæðisflokknum.
Líf Magnesudóttir hefur gefið út að VG verði í minnihluta á kjörtímabilinu.