Karlmaður á þrítugsaldri ógnaði tveimur starfsmönnum í kjörbúð á Akureyri með hnífi og krafðist þess að fá afhenta peninga úr sjóðsvélum á sjöunda tímanum í morgun en þetta kemur fram í Facebook færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Þegar hann hafði fengið peningana hljóp hann á brott en lögreglumenn á Akureyri fengu veður af ráninu meðan það var yfirstandandi og gátu brugðist skjótt við en unnt var að rekja ferðir mannsins í nýföllnum snjónum og ganga að honum þar sem hann hafði falið sig. 

Maðurinn veitti ekki mótspyrnu við handtökuna en er talinn hafa verið undir áhrifum bæði áfengis og fíkniefna en hann var vistaður í fangageymslu á meðan af honum rennur og hægt verður að yfirheyra hann. 
Peningaupphæðin sem maðurinn rændi er óveruleg og var starfsfólki verslunarinnar boðin áfallahjálp en ekki er talið að maðurinn hafi átt sér vitorðsmenn. Ákvörðun um gæsluvarðhald verður tekin í kvöld.