Karlmaður hefur verið ákærður fyrir fimm brot gegn valdstjórn en hann gerðist ítrekað sekur um að ráðast á lögreglumenn við skyldustörf. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í liðinni viku.

Í ákærunni kemur fram að brotin hafi flest átt sér stað árið 2020 en þó einhver þeirra fyrr. Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir að hrækt á lögreglumenn sem voru við störf á Suðurlandsvegi, auk þess sem hann beit í framhandlegg eins þeirra og sparkaði í búk læri og andlit.

Þá er hann ákærður fyrir brot gegn valdstjórn og ólögmæta nauðung en eitt kvöld í apríl árið 2019 veittist hann að starfsmönnum opinberrar stofnunar og hótaði þeim lífláti og líkamsmeiðingum. Hann ógnaði þeim með dúkahnífsblaði. Hann neyddi starfsmennina til að fylgja sér um allt húsið og opna þar skrifstofur svo hann gæti eyðilagt síma inni á þeim. Þá tók hann af starfsfólkinu síma þeirra og af tveimur vistmönnum á stofnuninni.

Þá er honum einnig gert að sök að hafa sparkað í klof lögreglumanns og sparkað í andlit lögreglumanns í lögreglubifreið og nokkrum dögum síðar að hafa hrækt á lögreglumann í lögreglubifreið sem ekið var áleið til Reykjavíkur. Á leiðinni hótaði hann lögreglumönnum ítrekað lífláti og líkamsmeiðingum.