Maður í mjög annarlegu ástandi sökum áfengis og fíkniefnaneyslu ógnaði fólki í verslunarmiðstöðinni í Mjódd í gær. Lögregla var kölluð til, maðurinn yfirbugaður og vistaður i fangaklefa þar sem hann bíður nú skýrslutöku. Þá var maðurinn einnig með fíkniefni meðferðis.

Sautján ára stúlka var stöðvuð á 148 kílómetra hraða á Miklubraut þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Stúlkan hafði einungis verið með ökuréttindi í tólf daga en má vænta þess að missa ökuréttindi sín ásamt því að fá rúmlega 200 þúsund króna sekt fyrir brotið. Málið var einnig tilkynnt foreldrum og barnavernd.

Lögreglunni barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi á veitingastað í Mosfellsbæ. Honum var vísað út af staðnum en fjölskyldumeðlimir hans komu honum til aðstoðar og fóru með hann heim til sín svo ekki yrðu frekari vandræði.

Ökumaður var stöðvaður í Breiðholti sem reyndist aldrei hafa öðlast ökuréttindi. Málið var afgreitt með vettvangsformi og að því loknu hélt maðurinn för sinni áfram fótgangandi.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir í gær­kvöld og í nótt sem grunaðir voru um akst­ur und­ir áhrif­um áfeng­is- og fíkni­efna.