Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. Meðal annars varð að sinna „þónokkrum“ málum sem tengdust ölvun og fólki í annarlegu ástandi, auk þess sem tilkynnt var um nokkra minniháttar pústra í miðbænum. Í tilkynningu frá lögreglu til fjölmiðla kom fram að kvartað hafi verið í nokkur skipti vegna hávaða í heimahúsum og frá skemmtistöðum.

Eitt tilvikanna sem greint er frá í lögreglutilkynningunni varð við skemmtistað í miðbænum rétt fyrir klukkan fjögur þar sem aðili í annarlegu ástandi lenti í útistöðum við dyraverði, fór í burtu en kom síðan aftur vopnaður hafnaboltakylfu. Hagaði hann sér með ógnandi hætti en sem betur fór sakaði engan og aðilinn var síðan vistaður í fangaklefa.

Í lögreglutilkynningunni var greint frá sjö tilvikum þar sem ökumenn voru stöðvaðir og færðir á lögreglustöð vegna gruns um ölvunarakstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra var sagður „mjög ósamvinnuþýður.“ Flytja varð einn ölvaðan mann á bráðamóttöku eftir að hann hrasaði og datt á veitingastað.

Í Elliðaárdal urðu lögreglumenn varir við eld í vinnuskúr og voru tveir menn í annarlegu ástandi handteknir vegna íkveikju. Í hverfi 110 var tilkynnt um minnst þrjú innbrot eða tilraunir til innbrots. Í tveimur tilvikunum komst innbrotsþjófurinn, sem var kominn inn eða hálfur inn í íbúðirnar þegar hans varð vart, undan.