Landsréttur staðfesti á þriðjudag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir manni sem sendi sprengjuhótun á netfang Reykjanesbæjar sem beindist að ráðhúsi bæjarins í lok febrúar.

Maðurinn hefur ítrekað sent sprengjuhótanir ásamt því að hafa komið fyrir sögu lögreglu í á annað hundrað skipta, meðal annars vegna þrettán sprengjuhótana á síðustu tveimur árum.

Lögreglan telur mikla ógn stafa af manninum og að engin önnur úrræði en gæsluvarðhald sé fullnægjandi á meðan mál hans eru tekin fyrir. Gæsluvarðhaldið nær til fimmtudagsins 30. mars.

Í úrskurði héraðsdóms segir að maðurinn sé talinn hafa komið fyrst til landsins árið 2017 en hann sótti um alþjóðlega vernd sama ár sem hann hlaut árið 2018. Tólf málum gegn manninum er enn ólokið í kerfinu fyrir tímabilið 2022 til 2023 en hann hefur áður hlotið dóma.

Á annað hundrað verkefna lögreglu

Á árunum 2017 til 2021 hafði lögreglan haft til meðferðar 45 mál þar sem maðurinn er grunaður um refsiverða háttsemi. Meðal annars fjölda mála sem varða hótanir um hryðjuverk, aðrar hótanir, líkamsárásir, umsáturseinelti, húsbrot, eignaspjöll, brot gegn opinberum starfsmönnum, brot gegn nálgunarbanni, skjalafals, vopnalagabrot, brot gegn sóttvarnarlögum og fleira.

Auk allra ofantalinna tilvika hefur lögreglan sinnt á annað hundrað verkefna er varða manninn og háttsemi hans. Hann hefur áreitt einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki þar sem hann hefur mætt í eigin persónu og haft uppi ógnandi tilburði og hótanir. Þá hefur maðurinn ítrekað áreitt í gegnum tölvupósta.

„Flestir þessara aðila eiga það sameiginlegt að hafa veitt honum þjónustu eða aðstoð í gegnum tíðina,“ segir meðal annars í hinum kærða úrskurði héraðsdóms. „Áreiti hans hefur verið mjög ítrekað og á tíðum ofbeldisfullt og er til þess fallið að valda ótta og miklum óþægindum fyrir þá sem undir því sitja.“

Einbeittur brotavilji mannsins

Sækjandi málsins segir ljóst að maðurinn hafi einbeittan brotavilja og að ekkert lát virðist vera á brotastarfsemi hans. Hegðun hans hafi undanfarið verið að stigmagnast. Nauðsynlegt sé að stöðva manninn, sérstaklega þar sem brotahrina hans ógni hagsmunum fjölmargra annarra, bæði einstaklinga og opinberra stofnana.

„Þá valdi hún ótta hjá starfsmönnum þeirra stofnana sem fái hótanir og öðrum þeim sem fyrir háttsemi kærða verða. Með vísan til framangreinds telji sóknaraðili yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi sinni áfram sé hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn mála hans standi yfir sem og meðferð mála hans fyrir dómi,“ segir jafnframt greinargerð sóknaraðila.

Ítrekaðar sprengjuhótanir

Meðal þess sem maðurinn er nú sóttur til saka fyrir er sprengjuhótun á ráðhús Reykjanesbæjar í febrúar auk tólf annarra sprengjuhótana.

Þá hefur maðurinn ítrekað sent hótanir á netfang lögreglunnar, komið við sögu í líkamsárás, hrækt á opinbera starfsmenn, unnið eignaspjöll.

Gæsluvarðhald yfir manninum rennur úr gildi 30. mars næstkomandi klukkan fjögur.