Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, vandar gamla flokknum sínum ekki kveðjurnar í nýrri bók, Rauða þræðinum, þar sem hann gerir upp ævi sína í pólitík og félagsmálum.

Af bókinni, sem kemur út 1. jan­úar og Fréttablaðið hefur undir höndum, má augljóslega ráða að Ögmundi þykir nú illa komið fyrir Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og rekur hann hvernig hallað hafi undan fæti hjá sínum gamla flokki. Hann gagnrýnir harðlega undanslátt og kúvendingu í utanríkismálastefnu VG og þykir honum það vera tímanna tákn að Björn Bjarnason, „helsti forystumaður Nató-vinafélagsins Varðbergs“, skuli vera fenginn til að skrifa álitsgerð í umboði ríkisstjórnar VG um öryggismál á norðurslóðum.

Þá þykir honum afstaða flokksins til markaðsvæðingar Evrópusambandsins, sem hafi birst meðal annars í afstöðu til orkumála, hafa breyst í grundvallaratriðum, svo mjög raunar að hann veltir því fyrir sér hvort rétt sé fyrir flokkinn að stytta heiti sitt, sleppa tilvísun í vinstri og grænt þannig að eftir standi „Hreyfingin framboð“ og þá megi skammstöfunin vera eftir því, Hf.

Talar gegn samstarfi við hægrimenn

Í bókinni talar Ögmundur eindregið gegn samstarfi við hægrimenn, en geldur líka varhug við sameiningu vinstrimanna og segir hana beinlínis vera hættulega, enda hafi sá hluti vinstrimanna sem kalla megi krata hneigst til markaðshyggju, „meira að segja stundum umfram hreinræktaða hægri flokka.“ Því fari betur á því að vinstriflokkarnir séu fleiri en einn.

Einna mesta athygli í skrifum Ögmundar fá deilurnar um Icesave, ESB-umsóknina og fjárfestingar Núbós, en öll þau mál komust nærri því að fella ríkisstjórn VG og Samfylkingar á kjörtímabilinu 2009 til 2013. Hann segist þar alltaf hafa gætt þess að stjórnin spryngi ekki, hvað svo sem á hafi gengið: „Vandi okkar sem börðumst gegn gáleysislegri meðferð Icesave-málsins var sá, að við fengjum yfir okkur þá sem reynst höfðu alltof auðsveipir málaliðar auðstéttarinnar, nánast volgir úr valdastólunum í aðdraganda hrunsins. Var okkur í fersku minni þjófræðið sem þrifist hafði í skjóli þeirra, um síðir svo yfirgengilegt að þeim sjálfum blöskraði.“

Bók Ögmundar er hlaðin mannlýsingum og palladómum, þar á meðal um samferðamenn hans í stjórnmálum þar sem allir fá sitt – og má vera ljóst af lestrinum að hann þarf að taka sig á þegar hann gerir upp sakir við samstarfsmenn í eigin flokki og ríkisstjórn, þá sérstaklega sinn gamla vin, Steingrím J. Sigfússon, svo og Jóhönnu Sigurðardóttur.