Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að miðað við það sem fram hefur komið um brot á kosningalögum í Norðvesturkjördæmi sé ekki neitt brot sem geti leitt til ógildingar kosningarinnar ef horft sé til 120 gr. kosningalaga.
Þetta kemur fram í pistli frá Ólafi sem birtist í Fréttablaðinu í dag.
Í 120. gr. laga um kosningar til Alþingis segir þetta um ógildingu kosningar: „Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á misfellunum, enda séu þær verulegar. Fer um alla þingmenn, kosna af listanum, eins og annars um einstakan þingmann ef misfellurnar varða listann í heild.“
Í grein sinni segir Ólafur jafnframt að hann hafi bent forseta Alþingis á að ekki teldist heppilegt að nýkjörnir þingmenn úrskurðuðu um eigin kosningu. Því sé þó ekki hægt að breyta í kosningalögum, af því þetta er stjórnarskrárbundið.
Þá viti hann ekki um neinar þingkosningar í vestrænu lýðræðisríki sem hafa verið úrskurðaðar ógildar, ekki síðustu öldina hið minnsta. Ólafur viti þó um dæmi í mörgum þeirra þar sem kosningalög hafa verið brotin með alvarlegri hætti en nú í Norðvesturkjördæmi.