Ólafur Þ. Harðar­son, prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands, segir að miðað við það sem fram hefur komið um brot á kosninga­lögum í Norð­vestur­kjör­dæmi sé ekki neitt brot sem geti leitt til ó­gildingar kosningarinnar ef horft sé til 120 gr. kosninga­laga.

Þetta kemur fram í pistli frá Ólafi sem birtist í Frétta­blaðinu í dag.

Í 120. gr. laga um kosningar til Al­þingis segir þetta um ó­gildingu kosningar: „Ef þeir gallar eru á fram­boði eða kosningu þing­manns sem ætla má að hafi haft á­hrif á úr­slit kosningarinnar úr­skurðar Al­þingi kosningu hans ó­gilda og einnig án þess ef þing­maðurinn sjálfur, um­boðs­menn hans eða með­mælendur hafa vís­vitandi átt sök á mis­fellunum, enda séu þær veru­legar. Fer um alla þing­menn, kosna af listanum, eins og annars um ein­stakan þing­mann ef mis­fellurnar varða listann í heild.“

Í grein sinni segir Ólafur jafn­framt að hann hafi bent for­seta Al­þingis á að ekki teldist heppi­legt að ný­kjörnir þing­menn úr­skurðuðu um eigin kosningu. Því sé þó ekki hægt að breyta í kosninga­lögum, af því þetta er stjórnar­skrár­bundið.

Þá viti hann ekki um neinar þing­kosningar í vest­rænu lýð­ræðis­ríki sem hafa verið úr­skurðaðar ó­gildar, ekki síðustu öldina hið minnsta. Ólafur viti þó um dæmi í mörgum þeirra þar sem kosninga­lög hafa verið brotin með al­var­legri hætti en nú í Norð­vestur­kjör­dæmi.