„Það verður ó­gerningur að halda ein­hverja þjóð­há­tíð með 500 manns. Ég held að það sé alveg ljóst,“ segir Jónas Guð­björn Jóns­son, vara­for­maður þjóð­há­tíðar­nefndar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir stöðuna svekkjandi fyrir alla í Eyjum og að fjár­hags­legt tjón af því að halda há­tíðina ekki verði gríðar­legt.

Búið að afbóka alla

Eftir að Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir sagði á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í gær að hann myndi mæla með því að 500 manna sam­komu­bann yrði fram­lengt út ágúst urðu vonir Eyja­manna um að geta haldið þjóð­há­tíð í ein­hverri mynd að engu. „Miðað við þessar nýjustu fréttir þá eru litlar líkur á að eitt­hvað verði hægt að halda. Það lítur alla­vega ekki vel út,“ segir Jónas Guð­björn.

Þó er ekki form­lega búið að taka á­kvörðun um fram­haldið innan þjóð­há­tíða­nefndar en hún hefur ekki náð að koma saman enn. Hún mun gera það eftir helgi og segir vara­for­maðurinn að þá megi væntan­lega búast við yfir­lýsingu. Búið er þó að af­bóka alla þá lista­menn sem búið var að bóka fyrir há­tíðina.

„Þetta gerðist þarna snemma í mars þannig við vorum sem betur fer bara rétt farin af stað með undir­búninginn. Það var ekkert mikið búið að bóka þannig séð,“ segir Jónas Guð­björn. Árið í ár verður því að öllum líkindum það fyrsta í 145 ára sögu þjóð­há­tíðar sem hún verður ekki haldin.

„Þetta er hundsvekkjandi. Há­tíðin var orðin að menningar­fyrir­bæri, ekki bara fyrir Eyja­menn heldur allt landið. Svo er þetta mikið fjár­hags­legt tjón fyrir ÍBV og allt sam­fé­lagið í Eyjum,“ segir hann. Þannig hafa veitinga­staðir og gisti­staðir í Vest­manna­eyjum grætt mikið á há­tíðar­höldunum enda sækja þangað ár hvert tug­þúsundir Ís­lendinga.

„En svona er bara staðan og við verðum að lifa með því. Við komum tví­efld á næsta ári,“ segir Jónas Guð­jón.