Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að þrátt fyrir það siðleysi sem viðgengst á Íslandi muni samninganefnd Eflingar hafa sigur í baráttu sinni. Hún gagnrýnir Samtök atvinnulífsins fyrir að reyna takmarka áhrif verkfallsaðgerða.

Morgunblaðið greindi frá því í dag að Samtök atvinnulífsins hygðust víkja frá útdeilingarreglum vinnudeilusjóðs. Samtökin myndu heita fullum stuðning við Íslandshótel vegna þeirra verkfallsaðgerða sem Efling beinir að fyrirtækinu og takmarka þannig áhrif verkfallsaðgerða svo um munar.

Forréttinda menn

„Hugsið ykkur ef að ríku mennirnir sem ráða þessu landi og lifa í vellystingum myndu verða við kröfum samninganefndar Eflingar um að láglaunafólk, arðrænt kven-vinnuafl hótelanna sem skapar auðinn sem þeir svo hirða, fengi að lifa frjálsara undan endalausum fjárhagsáhyggjum, í stað þess að opinbera sig í sífellu sem menn sem fyrirlíta ekkert meira en verkakonur íslensks vinnumarkaðar?“ spyr Sólveig Anna á Facebook síðu sinni og deilir mynd af frétt um að Íslandshótel fái allt tjón bætt komi til verkfalls.

Sólveig Anna segir forréttinda menn landsins tilbúna til að gera bókstaflega allt annað en að borga stritandi konum mannsæmandi laun. „Og í stað þess að styðja við baráttu Eflingar fyrir jöfnuði og sanngirni stendur stjórnmálastéttin sameinuð að baki hinum voldugu mönnum, í aumkunarverðri undirgefni við auðstéttina. Og ekki heyrist eitt stuðningsorð frá verkalýðsleiðtogum landsins, hvorki mönnum né konum.

Það er ekkert annað en ógeðslegt að verða vitni að þessu helsjúka ástandi,“ segir Sólveig Anna jafnframt í færslu sinni. Hún telur öruggt að samninganefnd Eflingar muni vinna sína baráttu.

Persónuleg framasýki

„Og kannski rennur sá dagur einhvern tímann upp að á þessu landi kemst fólk til valda sem hefur samhygð og sanngirni að leiðarljósi en er ekki knúið áfram af persónulegri framasýki og yfirgengilegri auðmýkt gagnvart valdi auðsins,“ segir Sólveig Anna að lokum.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali við Morgunblaðið að eignir vinnudeilusjóðs væru um fimm milljarðar króna og að sjóðurinn væri meðal annars hugsaður til að bregðast við skæruverkföllum og ef gripið væri til ómálefnalegra aðgerða gegn aðildarfyrirtækjum samtakanna.